Ekki náð að stilla sér saman um netverslun áfengis

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hákon

Frumvarpið um að heimila netverslun áfengis, sem Hildur Sverrisdóttir þingkona Sjálfstæðisflokksins lagði fyrir Alþingi í mars, mun ekki ná fram að ganga fyrir þinglok. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við mbl.is að ekki hafi náðst tími fyrir meirihlutann til að stilla sér saman um afgreiðslu málsins.

„Það er þannig að þegar við erum að ljúka þingi þá er það alltaf þannig að meirihlutinn stillir sér saman um afgreiðslu þingmannamála, og ég lít nú svo hreinlega á að það hafi ekki náðst tími til að stilla sér saman um þau mál,“ sagði forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

„En það er auðvitað þannig að við stillum okkur alltaf saman um afgreiðslu þingmannamála, það er bara hluti af því að vera í meirihluta. Þau eru ekki bara borin upp undir atkvæði án þess að það sé rætt fyrirfram og meirihlutinn stillir sér saman.“

Mikil vonbrigði

Fjallað var um málið í gær en frumvarpið hafði farið í gegn­um fyrstu umræðu á Alþingi og komið mjög langt í nefnd­ar­vinnu, að sögn Hild­ar. En það mun vera í fyrsta skipti í ára­tugi sem áfeng­is­frum­varp kemst svo langt á þing­inu.

„Þetta eru mér, og fleir­um, mik­il von­brigði. Ekki síst þar sem þetta frum­varp fel­ur ekki í sér neina koll­vörp­un. Ein­ung­is átti að móta skýr­ari ramma utan um net­versl­an­irn­ar sem eru nú þegar starf­rækt­ar, með áherslu á að að jafn­ræðis sé gætt gagn­vart inn­lend­um fram­leiðend­um,“ sagði Hildur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert