Svæði, sem búið var að meta gríðarlega verðmæt með náttúruna í huga, eru aftur sett í hættu eftir að staðir eins og til að mynda Héraðsvötn eru færð úr verndarflokki í biðflokk samkvæmt rammaáætlun, sem afgreiða á fyrir þinglok.
Þetta segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, en boðað hefur verið til samstöðufundar vegna stöðu rammaáætlunar. Fundurinn hefst klukkan 17 fyrir utan Alþingishúsið og eru náttúruunnendur hvattir til að mæta.
Þriðji áfangi rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða hefur hlotið afgreiðslu innan umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis en nefndin afgreiddi þingsályktunartilllögu um rammaáætlunina á föstudaginn.
„Þetta snýst um það að allt í einu hefur meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis ákveðið að breyta niðurstöðu rammaáætlunar,“ segir Auður.
„Þessu viljum við mótmæla,“ segir hún. Vinnubrögðin séu ólýðræðisleg vegna þess hve skömmu fyrir þinglok tillagan kemur fram og einnig sé hún ófagleg; engar haldbærar röksemdir eða gögn styðji málatilbúnað meirihlutans.
„Þarna er ekki verið að standa vörð um náttúru Íslands. Ekki einu sinni með því eina tæki sem hún hefur til að verja sig gagnvart virkjunum; sem er rammaáætlun.“
Samkvæmt þriðja áfanga rammaáætlunar á meðal annars að færa virkjanir kenndar við Héraðsvötn og Jökulsárnar í Skagafirði úr verndarflokki í biðflokk og sömuleiðis Kjalölduveitu neðst í Þjórsárverum,
Landvernd bendir á að virkjanahugmyndir við Héraðsvötn og Skjálfandafljót auk Kjalölduveitu séu allar í jaðri mikilvægra víðernasvæða hálendisins en Landsvirkjun hafi illa getað sætt sig við að þær færu í verndarflokk. Áralöng barátta náttúruunnenda fyrir varanlegri sátt um vernd Þjórsárvera og farveg Þjórsár, fjórum af mestu fossum landsins, yrði að engu gerð.
Auður segist hafa trú á því að mótmælin skili einhverju, annars stæðu þau ekki í þeim.
„Vonin er kannski veik en við vonum að þingmenn finni sláttinn í sínu eigin náttúruverndarhjarta og standi vörð um íslenska náttúru. Það er þeirra hlutverk.“
Hefði ekki þótt skrítið fyrir nokkrum árum að þetta væri að gerast með Vinstri græn í ríkisstjórn?
„Það hefði þótt skrítið fyrir nokkrum árum og er mjög skrítið enn þá að náttúruverndarflokkur sé að leggja þetta til.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vísaði gagnrýni náttúruverndarsamtaka á bug í samtali við mbl.is fyrr í dag.