Gert ráð fyrir að brugghúsafrumvarp verði að lögum

Bryndís segist gera ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum …
Bryndís segist gera ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum fyrir þinglok þar sem mikil samstaða ríki um málið. mbl.is/Styrmir Kári

Frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um breytingu á áfengislögum, um sölu áfengis á framleiðslustað, eða brugghúsafrumvarpið svokallaða, sem miðar að því að smærri áfengisframleiðendum verði gert kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað, var afgreitt út úr allsherjar- og menntamálanefnd í gær. 

Þetta staðfestir Bryndís Haraldsdóttir, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is. Hún er sömuleiðis framsögumaður málsins í nefndinni. 

Áður hafði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, í ráðherratíð sinni í dómsmálaráðuneytinu, lagt fram frumvarp sem tók til sömu undanþága á lögum um áfengi auk þess sem lagt var til að netverslun með áfengi yrði leyfð. 

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Arnþór

Tvö frumvörp

Frumvarp Áslaugar hlaut ekki framgang og lagði hún fram málið að nýju, án ákvæðu um leyfi á netverslun en það hlaut ekki heldur afgreiðslu á Alþingi. 

Nú hefur Jón Gunnarsson tekið málið upp þar sem frá var horfið eftir að hann tók við lyklunum að dómsmálaráðuneytinu og Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði síðan fram sérstakt frumvarp þar sem lagt er til að heimila netverslun með áfengi. 

Bryndís segir í samtali við mbl.is að hún geri ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum fyrir þinglok þar sem mikil samstaða ríki um málið. Einungis fulltrúar Flokks fólksins hafa kosið að vera ekki samþykkir nefndaráliti við afgreiðslu málsins. 

Nefndarálitið og breytingartillögur meirihluta nefndarinnar hafa ekki enn verið birtar á vef Alþingis en Bryndís segir að lagðar verði til breytingar á málinu sem miða að því að víkka út leyfið til þeirra sem brugga sterkara áfengi en öl og að við bætist lýðheilsu mótvægisaðgerðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert