Löngu tímabærar breytingar

Framkvæmdastjóri Samtakanna 78 segir breytingar á reglugerð um blóðgjöf úrelta.
Framkvæmdastjóri Samtakanna 78 segir breytingar á reglugerð um blóðgjöf úrelta. Samsett mynd

Núverandi reglugerð sem kemur í veg fyrir að karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum geti gerst blóðgjafar, er byggð á fordómum og vantrausti í garð þeirra. Þingsályktunartillaga um aðgerðaráætlun um málefni hinsegin fólks, sem var samþykkt á Alþingi í gær, er einn liður í langri vegferð sem gífurleg vinna hefur farið í en löngu er tímabært að breyta þessu. Þetta segir Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78 og varaþingmaður Vinstri græn.

„Það er búið að taka rosalega mörg skref fram að þessu og það er náttúrulega alltaf þannig að þetta næst ekki í gegn,“ segir Daníel í samtali við mbl.is, sem ítrekar að þrátt fyrir að þingsályktunartillagan í gær hafi verið samþykkt, sé það samt ekki svo að samkynhneigðir menn, eða aðrir karlmenn sem stundi kynlíf með öðrum karlmönnum, geti gert sér ferð í blóðbankann núna til að gefa blóð. Er þetta enn í ferli.

Mikil vinna hafin

Að sögn Daníels er þingsályktunartillaga Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem var samþykkt í gær, alls ekki fyrsta skrefið í þessari vegferð. Mikil vinna hafi til að mynda verið sett af stað þegar Svandís Svavarsdóttir sinnti embætti heilbrigðisráðherra á síðasta kjörtímabili. Þá lagði hún fram drög að breytingu á reglugerð sem fól í sér að óheimilt yrði að mismuna blóðgjöfum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða svo sem kyns, kyn­hneigðar, upp­runa eða stöðu að öðru leyti.

Þá fól breytingin jafnframt í sér að kynhegðun myndi ekki lengur valda varanlegri frávísun blóðgjafar. Þess í stað var kveðið á um að blóðgjafi megi ekki hafa stundað áhættusamt kynlíf í fjóra mánuði og lögð var til skilgreining á því hvað teldist áhættusamt kynlíf, sem var „kyn­líf sem eyk­ur veru­lega lík­ur á að al­var­leg­ir smit­sjúk­dóm­ar ber­ist með blóði.“ 

„Áhættusamt kynlíf er í rauninni metið upp á nýtt vegna þess að það eru ekki bara karlar sem stunda áhættusamt kynlíf og ekki heldur bara karlar sem stunda kynlíf með öðrum körlum. Það var í rauninni eðli hennar reglugerðar breytingar s.s. að nálgast þetta eins og Frakkar nálgast þetta. Þeir breyttu bara ákveðnum skilgreiningum og þá var þetta ekkert mál,“ segir Daníel.

Andstaða í kerfinu

Þá segir hann drög Svandísar hafa varpað ljósi á hve hörð kerfisleg andstaða er gagnvart þessari breytingu, þá aðallega frá blóðbankanum sjálfum, sem beri fyrir sig að verið sé að verja hag blóðþegans.

„Eins og blóðbankinn hefur alltaf sagt snýst blóðgjöf um traust en þeir treysta bara ekki okkur. Það er málið. Það er það sára í þessu máli. Þegar kemur að karlmönnum sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum þá snýst það greinilega ekki um traust.“

Þá telur hann jafnframt skilgreininguna í dag á áhættusömu kynlífi skakka.

„Við erum að meina karlmanni sem hafa verið giftur sama karlmanninum í 25 ár að gefa blóð og hann hefur aldrei stundað kynlíf með neinum nema þessum síðastliðin 25 ár og eins með manninn hans.

En á sama tíma erum við að leyfa manneskju sem skilgreinir sig gagnkynhneigða, sefur samt mögulega reglulega með körlum eða er óábyrg hvað kynlífshegðun varðar – sú manneskja getur bara labbað inn í blóðbanka til að gefa blóð.“

Vonar hann að breytingar á reglugerðinni taki brátt gildi, líkt og kveðið var á um í drögum Svandísar, enda sé það löngu tímabært. Ekki síður vegna þess að mikill skortur er á blóðgjöfum um þessar mundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert