Selja eigi fíkniefni í apótekum

Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, telur Ísland vera á rangri braut með refsistefnu fyrir neyslu og dreifingu fíkniefna. Meðhöndla eigi fíkniefnin eins og áfengi og vera með þau í vörumerkjum. Jafnvel selja þau í apótekum.

Hann segir það auðvitað þýða að einhverjir verði háðir fíkniefnunum eins og þeir verða háðir áfenginu „en þá reynum við að bregðast við því með því að bjóða þeim meðferð og lækningu“.

Að sögn Jóns er undirheimaveröld glæpamanna nærð ef fíkniefnum sem er haldið sem ólöglegum efnum, enda flytji þeir þau inn. Þá bendir hann á að efnin sem eru flutt inn séu oft stórhættuleg, því hættulegum efnum sé bætt út í þau.

„Strandhögg í heimi glæpamanna“

„Við eigum að vera með þetta í vörumerkjum og selja í apótekum. Þannig að þeir sem vilja neyta þeirra geta keypt sér efni sem eru ekki hættuleg, ekki að öðru leyti en því að fíkniefni eru alltaf hættuleg. Síðan þegar þeir ánetjast þeim, þá bjóðum við þeim meðferð eins og áfengissjúklingum. Með þessu myndum við gera strandhögg í heimi glæpamanna sem nærast á því að þessi efni og dreifing þeirra skuli vera ólögleg,“ segir Jón Steinar.

Að mati Jóns Steinars verður fótunum kippt undan verstu glæpamönnum samtímans ef efnin eru gerð lögleg og hver getur keypt það sem hann vill.

Hann segir grundvallaratriðið í þessu vera að við ákveðum sjálf hvers við neytum. „Ef við drepum okkur á því, þá verður bara að hafa það. Ef að við verðum fíklar, eigum við að eiga þess kost að leita okkur lækninga.“

Alls staðar hættur

Aðspurður segist Jón Steinar ekki telja að ástandið versni frá því sem það er núna með afglæpavæðingu fíkniefna. Hættur leynist alls staðar.

Lög­regl­an greindi frá því í síðustu viku að hún hefði lagt hald á fíkni­efni og efni til fram­leiðslu á fíkni­efn­um að and­virði 1,7 millj­arða króna í tengsl­um við um­fangs­mikla rann­sókn á skipu­lagðri brot­a­starf­semi hér á landi sem staðið hef­ur yfir síðustu mánuði.

„Halda menn virkilega að þessi árangur lögreglunnar muni draga úr fíknaefnaneyslu?“ spyr Jón Steinar og bætir við:

„Um leið og þú nærð þessum glæpamönnum sem selja þetta í undirheimunum, þá koma bara aðrir. Það verður kannski hærra verð á dópinu fyrst á eftir en svo jafnar markaðurinn sig. Þetta er algjör barátta við vindmyllur og menn vilja ekki sjá þetta,“ segir Jón Steinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert