Leiðsögumaður sem þekkir vel til Reynisfjöru og svæðisins þar í kring segir ferðamenn oftar en ekki hunsa skilti og lítið hlusta á varnaðarorð þegar þeim er bent á hættuna sem getur skapast í fjörunni.
Hann hefur fengið yfir sig fúkyrðaflaum frá fólki sem hunsar leiðbeiningar hans og ítrekað þurft að koma ferðamönnum í háska til bjargar. Ekkert virðist hafa fælingarmátt, ekki einu sinni banaslys.
Fjölda lögreglu- og björgunarsveitarmanna hafi til að mynda ekki tekist að bægja ferðamönnum frá vettvangi banaslyss í fjörunni í nóvember síðastliðnum.
„Það voru sex lögreglumenn niðri í fjörunni, síðan voru björgunarsveitarmenn þarna, örugglega um 30 manns, þyrlan var sveimandi þarna yfir en samt var fólk að koma niður eftir alveg í hrönnum. Lögreglan var hlaupandi út um allt á eftir þeim og reyndi að bægja þeim frá en það var enginn sem hlustaði, þó lögreglan væri þarna,“ segir Sveinn Snorri Sighvatsson leiðsögumaður í samtali við mbl.is
Þá hafi sjúkrabíll verið með blikkandi ljós við veginn. „Fólk var ekkert að pæla í því. Það fór samt niður að fjörunni og var að sulla og djöflast.“
Hann segist ekki geta annað en hlegið að umræðunni um að hafa landvörð í fjörunni, en Friðrik Rafnsson, formaður Leiðsagnar, stéttarfélags leiðsögumanna, er hlynntur þeirri hugmynd, líkt of fram kom á mbl.is í gær. Sveinn segir hins vegar nokkuð ljóst að ekki yrði hlustað á landvörð, ekki frekar en lögreglu.
„Mér finnst svo fyndið þegar það er verið að tala um að vera með landvörð þarna niður frá. Það myndi ekkert virka. Það er bara eins og að pissa upp í vindinn.“
Þá hefur Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálráðherra, sagt að hún sé tilbúin að nota þær lagaheimildir sem eru til staðar til að loka hættulegum ferðamannastöðum á borð við Reynisfjöru.
Sveinn telur þó ekki hægt að loka svæðinu, ekki nema loka allri suðurströndinni eins og hún leggur sig, nema grípa til annarra aðgerða samhliða.
Sjálfur er hann með hugmynd um hvernig mætti beina fólki frá fjörunni og bjóða upp á öruggari kost fyrir ferðamenn fjær sjónum.
„Það sem ég sé fyrir fyrir mér að hægt sé að gera er að útbúa stiga upp á pall þarna fyrir ofan. Það væri þá hægt að labba vinstra megin upp í hlíðina og upp á pall og þá loka ströndinni með snyrtilegu grindverki. Það er eini möguleikinn.
Ég hef verið í þessu frá árinu 2009 og hef séð að það er ekkert sem virkar. Skilti, viðvaranir, fólk hlustar ekki. Annað hvort er að leyfa fólki að deyja þarna eða loka ströndinni og gera fallegan útsýnispall þannig fólk fari ekki niður í fjöru.“
Sveinn hefur ítrekað þurft að koma fólki til bjargar sem hefur verið hætt komið á svæðinu, jafnvel börnum. Þá hefur hann fengið yfir sig fúkyrðaflaum í tilraunum sínum til að vara fólk við hættunni.
„Ég óð þarna upp í brjóst til að koma konu til bjargar og setti líf mitt í hættu við það. Svo hef ég bjargað börnum þarna þrisvar sinnum. Sjálfur fer ég ekkert niður að sjónum. Við brýnum þetta fyrir fólki allavega þrisvar eða fjórum sinnum á leiðinni niður eftir. Ég sleppi mínu fólki ekki þangað. Ég fer alltaf með þeim og held hópinn. Þetta er bara lífshættulegt. Þetta er svo lúmskt. Jafnvel í rólegum sjó þá kemur alda alveg á trukkinu inn. Meirihlutinn af sjónum er sandur þannig þetta svo þungt.“
Sveinn, sem er björgunarsveitarmaður til margra ára og því ýmsu vanur, segist alltaf reyna að vísa fólki í burtu, enda finnst honum hann verða að bregðast við ef eitthvað kemur upp á.
„Þess vegna hefur maður verið að reyna að hasta á liðið þegar maður er þarna niður frá. Svo fer maður í burtu. En maður er með kvíðahnút í maganum yfir því að fara þangað. Stundum fer fólk í andlitið á manni bara með „attitude“. Það er oft viðbjóður sem maður fær yfir sig.“