Vísar gagnrýni náttúruverndarsamtaka á bug

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meiri­hluti um­hverf­is- og sam­göngu­nefnd­ar hef­ur lagt fram nefndarálit um áætl­un um vernd og ork­u­nýt­ingu landsvæða. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við mbl.is að hún telji viðfangsefni umræddrar rammaáætlunar vera hvernig hægt sé að viðhalda því faglega ferli sem hafi umlukið málaflokkinn.

„Ég held að þetta sé í raun og veru eina leiðin til þess að tryggja áfram þetta faglega ferli, sem byggir á því að við berum saman kosti og flokkum þá niður í vernd, nýtingu og bið, af því Alþingi hefur í raun og veru ekki getað lokið við þennan þriðja áfanga núna í sex ár,“ segir hún.

„Þannig að mér finnst það vera í raun og veru viðfangsefnið; hvernig ætlum við að viðhalda þessu faglega ferli. Ef það þarf að gera það með því að gera þetta í smærri áföngum þá held ég að það sé þess virði til þess að viðhalda þessu ferli að við séum að reyna að byggja á vinnu sérfræðinganna.“

Lögð fram í fjórða sinn af fjórða ráðherranum

Katrín segir að hingað til hafi Alþingi ekki tekist að ljúka þessum 3. áfanga rammaáætlunar, en hún hefur áður bent á að fyrirliggjandi rammaáætlun, sem var fyrst lögð fram árið 2016, sé nú lögð fram í fjórða skiptið af fjórða umhverfisráðherranum.

„Eins og ég hef bent á í þinginu og annars staðar þá er þetta þannig að þessi rammaáætlun er núna lögð fram í fjórða sinn af fjórða ráðherranum, en hún var fyrst lögð fram árið 2016. Hingað til hefur Alþingi einfaldlega ekki getað lokið þessum áfanga, kannski vegna þess einfaldlega eins og ég hef sagt að hann er of stór.

Niðurstaða meirihlutans núna er að stækka biðflokkinn, fækka kostum í nýtingu, fækka kostum í vernd, setja þá á bið, óska eftir frekari upplýsingum og við afgreiðum tiltekna kosti í vernd og tiltekna kosti í nýtingu.“

Mikilvægir kostir í nýtingu sem fara í bið

Katrín bendir á að þó umræðan snúist að miklu leyti um svæði sem fara úr verndarflokkum yfir í bið þá séu aðrir mikilvægir kostir í nýtingarflokki sem fara yfir í bið.

„Það má ekki gleyma því að þó að umræðan snúist öll um þessa kosti úr verndarflokkum sem fara yfir í bið, þá eru þarna líka mjög mikilvægir kostir í nýtingu sem fara yfir í bið. Ég nefni Skrokköldu inn á miðju hálendi sem náttúruverndarhreyfingin hefur gagnrýnt mjög að sé í nýtingar flokki, ef við erum að hugsa um landslagsheildina inn á hálendi og ósnortin víðerni, sem og kostir í neðri hluta Þjórsár sem hafa verið gríðarlega umdeildir í samfélaginu, þannig að þeir eru færðir úr nýtingu í bið. Þannig að þarna er verið að reyna að viðhalda þessu jafnvægi líka,“ segir hún og vísar gagnrýni náttúruverndarsamtaka alfarið á bug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert