Ríkisstjórnin hefur bætt við sig fylgi en er þó naumlega fallin, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Prósents fyrir Fréttablaðið.
Stjórnarflokkarnir bæta samanlagt við sig næstum fimm prósentustigum og þar munar mestu um fylgisaukningu Framsóknarflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 18,5 prósent, sem er 0,6 prósentustigum meira en í síðustu könnun Prósents 27. apríl. Píratar mælast með 17,5 prósent sem er aukning um 1,3 prósentustig og Framsóknarflokkurinn með 17,3 prósent, sem er bæting um 4,9 prósentustig.
Samfylkingin, Vinstri græn, Viðreisn og Flokkur fólksins tapa öll fylgi. Mestu fylgi tapar Samfylkingin, eða 3,3 prósentustigum og mælist flokkurinn nú með 13,5 prósenta fylgi.
Samkvæmt könnuninni mælast stjórnarflokkarnir þrír með 30 þingsæti, en þeir hafa 38 í dag. Þetta myndi ekki duga til meirihluta en samt er þetta bæting um fjögur þingsæti frá síðustu könnun Prósents.