Best að þingmenn færu í flúðasiglingu til að átta sig

Vinstri græn í Skagafirði vilja að jökulárnar í firðinum verði …
Vinstri græn í Skagafirði vilja að jökulárnar í firðinum verði settar í verndarflokk. Ljósmynd/Vinstri græn í Skagafirði

Álfhildur Leifsdóttir, oddviti Vinstri grænna í Skagafirði, segir í samtali við mbl.is að mikil sorg fylgi því að Jökulárnar í Skagafirði séu ekki friðaðar í nýrri rammaáætlun og best væri að þingmenn meirihlutans myndu fara í flúðasiglingu til að átta sig á verðmætunum sem felast í svæðinu óröskuðu.

Vinstri græn í Skagafirði sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þau mótmæltu því að Jökulárnar í Skagafirði verði færðar úr verndunarflokk yfir í biðflokk með Rammaáætlun þrjú sem var samþykkt á Alþingi í dag. 

Aðspurð segist hún hrædd um að þessi breyting bendi til þess að fyrirhugað sé að virkja Jökulárnar sem að hennar mati sé hræðilegt. „Þarna erum við að tala um einstakt náttúrusvæði sem að faghópur rökstyður mjög vel að sé með hæsta verðmætamat af öllum landsvæðunum í Rammaáætlun þrjú.“ 

Þá bendir hún á að svæðið sé mjög mikilvægt fyrir ferðamannaþjónustu og að þarna sé flúðasigling á heimsmælikvarða og önnur þjónusta. Segist hún þá vera tilbúin að bjóða þingmönnum meirihlutans í flúðasiglingu svo að þeir geti áttað sig á verðmætinu sem felst í þessari starfsemi. 

Hún tekur þó fram að hún sé ágætlega bjartsýn á að svæðinu verði ekki raskað en ítrekar að ekki er hægt að vita fyrir vissu hvaða hagsmunaröfl eru að baki breytingunum og að maður geti ekki fundið fyrir ró fyrr en að svæðið verði friðað. Bætir hún við að ferðaþjónustu aðilar á svæðinu séu uggandi yfir þessu.

Gegn vilja kjósenda

Álfhildur segir þessa ákvörðun vera þvert á vilja meirihluta fólks í Skagafirði ef miða má við sveitastjórnarkosningarnar þar sem Vinstri grænir unnu stóran sigur. „Við beittum okkur hér í kosningunum gegn virkjunar áformum og vorum með fjórfalt meira fylgi hér í Skagafirði heldur en VG var með á landsvísu og ég vil tengja það beint við þetta kosningamál að vernda Jökulárnar,“ segir hún. 

Að sögn hennar hefur þeim ekki borist nein viðbrögð innan úr flokknum gagnvart mólmælum sínum við nýrri rammaáætlun. „Við höfum ekki fengið önnur viðbrögð en þau sem bárust frá Bjarna Jónssyni sem vitnaði í yfirlýsinguna í þingsal í gær í umræðum um rammaáætlunina.“

Spurð hvort að Vinstri grænir gætu gert meira í ríkisstjórn segir Álfhildur að hún myndi vilja sjá þingmenn flokksins standa með náttúrunni líkt og Bjarni Jónsson gerir. Viðurkennir hún þó að greinilega sé um málamiðlanir að ræða sem geta verið mikilvægar. „Auðvitað er þetta ekki alslæmt en ég myndi vilja fara eftir þessum faglegu rökum frekar en málamiðlunum,“ segir Álfhildur og vísar til verðmæta sem felast í ferðamennsku á svæðinu.

Að lokum bendir hún á að Katrín Jakobsdóttir hafi sjálf flutt þingsályktunartillögur um verndun svæðisins og er því um stórt bakslag að ræða að mati Álfhildar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka