Ganga í Alþjóðasamtök leigjenda

Stjórn Alþjóðasamtaka leigjenda fagna Guðmundi Hrafni Arngrímssyni og Laufeyju Líndal …
Stjórn Alþjóðasamtaka leigjenda fagna Guðmundi Hrafni Arngrímssyni og Laufeyju Líndal Ólafsdóttur, fulltrúum Samtaka leigjenda á Íslandi þegar þau fengu aðild að alþjóðasamtökunum. Ljósmynd/Aðsend

Á fundi stjórnar Alþjóðasamtaka leigjenda sem haldinn var í Helsinki íFinnlandi 15. júní var umsókn Samtaka leigjenda á Íslandi að samtökunumsamþykkt. Í tilkynningu frá íslensku leigjendasamtökunum segir að þau hafi þar með tengst öflugu neti sterkra leigjendasamtaka víða um lönd.

„Ég trúi að þetta hafi verið heillaskref,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður Samtaka leigjenda á Íslandi í tilkynningunni. „Það er mikilvægt fyrir ung og enn ómótuð samtök að geta sótt í reynslu þeirra sem erukomin lengra. Innan þessara samtaka eru félög sem hafa með baráttu sinnináð að umbylta húsnæðismarkaðnum í sínum löndum. Við munum sækja íreynslu þessa fólks.“

Á fundinum kynntu Guðmundur og Laufey Líndal Ólafsdóttir, stjórnarmaður í Samtökum leigjenda og Félagsbústöðum, íslenska leigumarkaðinn fyrir stjórnarmönnum Alþjóðasamtaka leigjenda. Skiljanlega var þeim nokkuð brugðið yfir hversu vanþroska hann er og hversu litla vernd leigjendur hafa. Á eftir fylgdu heitstrengingar um stuðning Alþjóðasamtakanna við baráttu leigjenda á Íslandi.

„Í þessum hópi var öllum ljóst að frumforsenda bættrar stöðu leigjenda er öflug leigjendasamtök,“ sagði Guðmundur. „Félögum okkar fannst við hafa náð miklum árangri á skömmum tíma en voru líka meðvituð um að það er langur vegur framundan og einhverjar brekkur. Sumt af þessu fólki kemur á norrænt þing leigjenda sem við stöndum fyrir í Reykjavík í haust og þar verður sérstaklega rætt um baráttuna á Íslandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert