Snýst um „pólitísk hrossakaup“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Hákon

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sagði ákvörðun um þriðja áfanga rammaáætlunar á endanum vera pólitíska ákvörðun, en greidd verða atkvæði um áætlunina í dag.

„Hafa þarf í huga hvernig við náum jafnvægi í nýtingu og náttúruvernd,“ sagði Þorgerður Katrín á Alþingi og bætti við að verkefnið væri snúið.

Hún gagnrýndi vinnubrögð í tengslum við ferlið og sagði málið fyrst og fremst snúast um „pólitísk hrossakaup“. Atkvæðagreiðslan snúist aðallega um að halda ríkisstjórninni saman en ekki að huga að jafnvægi á milli nýtingar og náttúru.

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Hákon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra steig næst í pontu og sagðist vera einn fárra núverandi þingmanna sem tók þátt í að samþykkja annan áfanga rammaáætlunar árið 2013. Hún hafi þá einnig verið sökuð um pólitísk hrossakaup.

Hún benti á að þriðja rammaáætlun hafi verið lögð fram fjórum sinnum án þess að Alþingi hafi náð að afgreiða málið.

Nefndi hún að afgreiða eigi 3. áfanga rammaáætlunar í smærri skrefum en verkefnastjórn lagði til. Meirihlutinn leggi til að stækka biðflokk rammaáætlunar.

Hún sagði enga kosti í biðflokki hafa verið virkjaða frá árinu 2013, enda sé það ekki hægt.

„Hér er talað eins og verið sé að færa ákveðnar virkjanahugmyndir í nýtingarflokk sem í raun er verið að setja í biðflokk. Hér er líka verið að færa hugmyndir úr nýtingarflokki yfir í biðflokk,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert