Landsréttur hefur snúið við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Áslaugar Thelmu Einarsdóttur gegn Orku náttúrunnar, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur. Orka náttúrunnar er fyrrverandi vinnuveitandi hennar. Félagið var sýknað í héraðsdómi en Landsréttur dæmdi Áslaugu í vil og féllst á kröfur hennar.
„Forsaga málsins er sú að mér var fyrirvaralaust sagt upp störfum í september 2018 eftir að ég hafði ítrekað kvartað undan framkomu framkvæmdastjórans, sem var minn næsti yfirmaður. Það var hann sem sagði mér upp og vildi helst fylgja mér beint út úr húsi.
Í kjölfarið leitaði ég til stjórnarformanns fyrirtækisins, þar sem ég gerði honum grein fyrir ítrekuðum kvörtunum mínum. Daginn eftir fund okkar, þremur dögum eftir uppsögn mína, var framkvæmdastjórinn rekinn. Sú uppsögn var sögð vera vegna framkomu hans við samstarfsfólk en þó var það látið fylgja að mitt mál og uppsögn hans tengdust ekki.
Það sem á eftir fylgdi var ótrúleg framganga vinnuveitandans, Orkuveitu Reykjavíkur, í minn garð með stuðningi eða í það minnsta þegjandi samþykki ráðandi afla í eigendahópi fyrirtækisins.“
Þetta kemur fram í færslu Áslaugar á Facebook-síðu hennar.
Hún kveðst hafa verið opinberlega smánuð á blaðamannafundi sem OR hafi boðað til, og hún ásamt eiginmanni sínum, sökuð um tilraunir til fjárkúgunar í öllum fréttamiðlum landsins. „Hér er um að ræða tímamótaaðför vinnuveitanda á hendur starfsmanni sem vonandi hefur hvorki sést fyrr né síðar.“
Áslaug hefur staðið í baráttu við OR í tæp fjögur ár og kveðst óska þess að þeim tíma hefði verið varið í eitthvað uppbyggilegra. Engu að síður sé hún þakklát fyrir að málinu sé nú lokið.
„Ég þakka öllum þeim sem sýndu mér vinarþel og stuðning í baráttunni fyrir réttlæti.“