Frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um breytingu á áfengislögum, um sölu áfengis á framleiðslustað, eða brugghúsafrumvarpið svokallaða, sem miðar að því að smærri áfengisframleiðendum verði gert kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað, var samþykkt á Alþingi í gærkvöldi.
Frumvarpið var samþykkt með 54 samhljóða atkvæðum og öðlast gildi 1. júlí.
Jón sagði frumvarpið marka tímamót og fagnaði hann samstöðu í þinginu um frumvarpið.
Hildur Sverrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, hafði áður sagt að halda ætti daginn hátíðlegan:
„Ég held að af þessu tilefni ættum við að ákveða að 15. júní, eða 16. júní eftir atvikum, verði haldinn hátíðlegur, eins og við höfum haldið upp á bjórdaginn frá 1. mars 1989, og kalla hann brugghúsdaginn.“