Grunur um fjölónæma berkla hér á landi

Þórólfur telur líklegt að senda þurfi sýni til útlanda til …
Þórólfur telur líklegt að senda þurfi sýni til útlanda til að staðfesta greininguna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grunur er um tilfelli af berklum hér á landi og til skoðunar er hvort um fjölónæma berkla er að ræða. Þetta staðfestir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. Hann gerir ráð fyrir að senda þurfi sýni til útlanda til að staðfesta greininguna, en aðeins er vitað um eitt tilfelli.

„Það er bara í skoðun. Þetta er það sem hefur verið bent á, þegar það kemur meiri flóttamannastraumur eins og núna undanfarið, þá er þetta eitthvað sem við getum búist við að sjá og það er tilfelli til skoðunar.“

Þórólfur segir það ekki nýtt að berklasmit greinist á Íslandi í seinni tíð, það hafi gerst reglulega síðustu ár. „Auðvitað er það erfiðara þegar það eru að greinast svona fjölónæmir berklar og það er það sem er í skoðun.“

Þórólfur vill ekki tjá sig um uppruna smitsins en aðspurður hvort viðkomandi sé í einangrun segir hann: „Það er bara verið að gera alla réttu hlutina í kringum það.“ 

Fjölónæmir berklar hafa nokkrum sinnum komið upp hér á landi en þeir eru ónæmir fyrir hefðbundnum berklalyfjum og eru vaxandi vandamál í heiminum. Um er að ræða alvarlegan sjúkdóm sem erfitt og kostnaðarsamt er að meðhöndla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert