Ísland eigi allt undir að alþjóðalög séu virt

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, …
Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á fundinum í Brussel. Ljósmynd/Atlantshafsbandalagið

„Land eins og Ísland á ekki möguleika ef hernaðarlegur styrkur, stærð eða annað slíkt ræður því hvort landvinningar séu viðurkenndir eða ekki eða alvarleg brot á alþjóðalögum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is.

Þórdís Kolbrún er nýkomin heim af fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins, NATO, í Brussel sem lauk í dag. Meðal helstu mála á dagskrá voru staða Úkraínu og aðstoð alþjóðasamfélagsins vegna innrásar Rússa í landið.

„Ísland á ekki möguleika í slíku samhengi. Við sem fullvalda og sjálfstætt ríki eigum að haga okkur samkvæmt því og vera bandalagsþjóð í orði og á borði. Mér finnst það skipta máli fyrir okkur sem þjóð, sem eigum allt undir að alþjóðalög, landamæri og lögsaga séu virt.“

„Þótt ógnin sé fjær okkur en mörgum öðrum þarf hver og einn Íslendingur að muna það að við eigum allt undir því að sú heimsmynd sem við höfum verið að byggja upp síðan í seinni heimsstyrjöld verði ofan á en ekki einhver önnur. Það er blákalt hagsmunamat Íslands, það er raunverulega svo einfalt,“ segir Þórdís Kolbrún.

NATO breytist í takt við stríðið

Varnarmálaráðherrar vina og bandalagsþjóða NATO voru einnig á fundinum. Þar sem Ísland hefur ekki sérstakan varnarmálaráðherra sótti Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra fundinn fyrir Íslands hönd.

„Okkar afstaða var að koma því skýrt á framfæri að það breyttist allt 24. febrúar. Það kallar á það að Atlantshafsbandalagið breytist í takt. Það þýðir að við þurfum að efla okkur enn frekar í varnarmálum. Horft var sérstaklega til Eystrasaltsríkjanna og Póllands, nágranna Rússlands, og að varnir þeirra yrðu efldar.“

Fundargestir á fundi varnarmálaráðherra í höfuðstöðum NATO í Brussel í …
Fundargestir á fundi varnarmálaráðherra í höfuðstöðum NATO í Brussel í dag. AFP/Valeria Mongelli

Stríðsrekstur Rússa snerti veröld alla

Ásamt aukinni áherslu á varnarmál hefur stríðið í Úkraínu haft áhrif á alþjóðasamfélagið hvað varðar fæðuöryggi.

„Rússar halda í gíslingu milljónum tonna af matvælum inni í Úkraínu sem þurfa mjög sárlega að komast út úr landinu. Það er ekki hagsmunamál á milli Rússlands og Úkraínu, NATO, eða Vesturlanda. Þetta snertir veröldina alla og fyrst og síðast þau ríki, sem síst ráða við að það verði miklar brotalamir í þessu. Það eru Afríkuríki og Mið-Austurlönd,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hún segir mikilvægt að ræða við kollega sína enda sé hafi Íslendingar margvíslegan hag af góðum alþjóðasamskiptum við bandalagsþjóðir sínar.

„Við höfum verið í samstarfi við ákveðin NATO-ríki, bæði við að aðstoða með flutning á búnaði sem úkraínski herinn og þjóðin þarf öll á að halda. Fundurinn var líka gott tækifæri til að þakka þeim ríkjum sem eru hér með loftrýmisgæslu, sem er eftirlit sem við njótum góðs af,“ segir Þórdís Kolbrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert