Aðgerðir Seðlabankans eru til þess fallnar að útiloka ákveðinn hóp kaupenda frá fasteignamarkaðnum, þeirra sem koma nýir inn á markaðinn og hafa ekki tök á því að taka óverðtryggð lán en munu ekki standast greiðslumat á verðtryggðum lánum, að mati Moniku Hjálmtýsdóttur, varaformanns Félags fasteignasala.
Hún telur að áhrifin muni ekki koma fram strax, enda séu flestir kaupendur enn að taka óverðtryggð lán. „Ef vaxtakjör versna þá held ég að þetta muni hafa talsverð áhrif.“ Hún skilur að seðlabankastjóri hafi áhyggjur af þróuninni og sé því að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til þess að sporna við því að fyrstu kaupendur færi sig yfir í verðtryggð lán.
„Þetta gæti samt verið eilítil móðgun við ungt fólk, eins og það geti ekki tekið sínar ákvarðanir. Mín reynsla af ungum kaupendum er sú að þeir séu búnir að kynna sér málin mjög vel áður en þeir ráðast í lántökur.“
Þá bendir hún á að aðgerðirnar gætu orðið til þess að fólk neyðist til að færa sig yfir á leigumarkaðinn í auknum mæli sem muni stuðla að ríflegri hækkun leiguverðs. „Ytri aðstæður eru að ýta undir hækkandi leiguverð nú þegar, til dæmis aukin ferðaþjónusta.“
Moniku þætti ákjósanlegra ef markaðurinn fengi að svara þróuninni án inngripa, enda trúir hún því að þegar verð nái þolmörkum muni hægjast á markaðnum.