Áfengissalan Sante.is var að fá sendan til sín 40 feta gám fullan af bjór. Útsöluverð á öllum 35.000 dósunum er samtals 9,7 milljónir en sama magn myndi kosta 13 milljónir í Vínbúðinni, samkvæmt útreikningum Santé. Eigendur fyrirtækisins segja að áfengisverð sé að minnsta kosti 20% of hátt á Íslandi.
„Við sendum út fréttabréf í dag til að tilkynna að bjórinn væri kominn en 500 manns höfðu lesið póstinn eftir fjórar mínútur. Pantanaprentarinn er sjóðandi heitur. Það er greinilega mikil ánægja með þetta,“ segir Elías Blöndal Guðjónsson, meðeigandi Sante.is, í samtali við Morgunblaðið.
Elías segir hátt verð í ríkisreknu vínbúðunum líklega stafa af álagningu hjá heildsölum því álagning Vínbúðarinnar sé lögbundin. Hann gagnrýnir fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi og segir það úrelt.
„Tími umboða og heildsala er liðinn því það getur í raun hver sem er keypt þessar vörur og selt í smásölu,“ segir Elías og bætir við að þar að auki séu verðmæti fólgin í því að fá vöruna heimsenda.
„Við erum með opið á þjóðhátíðardaginn, á afmælisdegi frelsishetjunnar Jóns Sigurðssonar, sem barðist fyrir verslunarfrelsi. Ég er ekki viss um að hann væri hrifinn af þessari einokunarverslun eins og er í landinu. Ég reikna með því að það verði mjög mikið að gera. Það er bæði föstudagur og svo verður lokað í einokunarversluninni.“