Snúin staða vegna fjölgunar Covid-veikra

Már Kristjánsson, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar.
Már Kristjánsson, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Landspítali ætlar að grípa til ráðstafana til þess að sporna við frekari útbreiðslu kórónuveirusmits innan spítalans. Grímuskyldu verður komið á og heimsóknir verða takmarkaðar. Staðan er snúin, að sögn yfirlæknis, en fjölgun innlagna Covid-veikra bætist ofan á annað álag á spítalanum og orlof starfsfólks. 

„Við erum með 30 sjúklinga inni á átta deildum, þar af eru 28 í einangrun, tveir á gjörgæslu og annar þeirra í öndunarvél. Það bættust við 16 síðastliðinn sólarhring vegna innlagna og smita innanhúss,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala. 

Hrumir og veikir einstaklingar 

Smitin hafa komið inn á spítalann með starfsfólki, sjúklingum og aðstandendum þeirra en eins og áður hefur verið greint frá hefur kórónuveirusmitum í samfélaginu fjölgað að undanförnu og greinast nú um 200 opinberlega á dag þó líklegt sé að enn fleiri smitist án þess að leita sér greiningar.

„Við erum bara að grípa til ráðstafana hérna innanhúss til þess að reyna að sporna við frekari útbreiðslu. Við erum að setja á grímuskyldu og efla aftur vitund fólks. Við ætlum líka að takmarka heimsóknir við einn einstakling í einn klukkutíma á dag.“

Aðspurður segir Már að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að færa spítalann upp á hættustig vegna ástandsins en það verður mögulega endurskoðað. 

Fólkið sem liggur inni á spítala núna smitað af kórónuveirunni liggur ýmist þar vegna Covid-19 eða vegna annarra veikinda og svo bætist Covid-19 ofan á þau. 

„Það voru held ég fjórir sem lögðust inn síðasta sólarhring sem lögðust inn vegna covid og 12 sem greinast vegna uppákomu á deildum. Þeir sem eru inniliggjandi í dag eru allt saman hrumir, veikir einstaklingar þannig að það hittir þetta fólk ekki sérstaklega vel fyrir,“ segir Már. 

Fleiri mannamót og minni grímunotkun 

Hann segir stöðuna sérstaklega erfiða vegna þess að margt starfsfólks sé nú í fríi.

„Nú erum við komin inn í orlofstíma og löng helgi fram undan þar sem fólk hefur ekki verið að skipuleggja sig í vinnu. Þetta er svolítið snúið.“

Er þetta óvænt staða?

„Það hefur verið svolítið [um smit] úti í samfélaginu og við vissum alveg af því. Svo er það bara þannig að ég held að það sé enginn sérstaklega ginnkeyptur fyrir takmörkunum og grímunotkun er ekki lengur almenn, kannski er sprittnotkun minni og síðan er fólk meira í samkomum vegna uppsafnaðrar þarfar. Það eru alls konar útskriftir og tilfallandi skemmtanir fólks og auk þess hefur ferðamannafjöldinn aukist,“ segir Már.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert