Keppninni aflýst og Ísland lokaáfangastaður

Siglingakeppninni Vendée Arctique hefur verið aflýst og er Ísland lokaáfangastaður.
Siglingakeppninni Vendée Arctique hefur verið aflýst og er Ísland lokaáfangastaður.

Siglingakeppninni Vendée Arctique hefur verið aflýst. Lægðin sem fer nú yfir Norður-Atlantshafið nálægt ströndum Íslands, og herjar á flotann sem tekur þátt í keppninni, hefur reynst mun hættulegri en fyrst var spáð.

Francis Le Goff, framkvæmdastjóri keppninnar, segir að versti ótti keppnishaldara hafi ræst.

„Við vissum fyrirfram um snöggar breytingar í veðri á þessu svæði, en okkar versti ótti hefur orðið að veruleika í tengslum við veðrið,“ segir hann og bætir við að þær áskoranir sem keppendur hafi þurft að glíma við í keppninni sýni fram á getu þeirra til að taka þátt í Vendée Globe, þar sem keppendur sigla umhverfis jörðina.

Frakkinn Charlie Dalin hafnar samkvæmt breytingunum í fyrsta sæti, Jérémie Beyou í öðru sæti og Thomas Ruyant í því þriðja.

Hafa ekkert heyrt

Ásgrímur Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við mbl.is að til þessa hafi ekki verið haft samband við Gæsluna.

„Það eru tveir komnir inn í Fáskrúðsfjörð, svo eru nokkrir aðrir sem eru komnir upp undir Suðvesturlandið. Við höfum ekkert heyrt í þeim, þeir hafa ekkert kallað á hjálp eða eitt né neitt,“ segir hann og bætir við að ef menn lenda í háska þá geti þeir komið boði til Gæslunnar:

„Við munum vaka yfir þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka