Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fór um víðan völl í ávarpi sínu í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslendinga, sem markar í dag 78 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Hún talaði um heimsfaraldurinn, stríðið í Úkraínu og áhrif þess, velsæld á Íslandi um þessar mundir og mikilvægi lýðveldisins. Þá minntist hún á sveitarstjórnarkosningarnar, rammaáætlunina og stefnu Íslands í utanríkis- og varnarmálum.
„Fyrir réttu ári vorum við enn að kljást við heimsfaraldurinn. Í honum sýndu íslenskt samfélag og heilbrigðiskerfi styrk sinn og á ótrúlega skömmum tíma er samfélagið orðið aftur eins og Erilborg sem ég las um sem barn í bókinni Öll erum við önnum kafin í Erilborg.“
Hún benti á að þegar náttúran sýnir klærnar, standi íslenska þjóðin sameinuð, þó að þess á millli „ríki nágrannaerjur um hina smæstu hluti.“
Katrín lýsti því yfir að stuðningur íslenskra stjórnvalda við Úkraínu væri afdráttarlaus.
„Þá er rætt um að Ísland endurskoði öryggis- og varnarmál sín og auðvitað er það viðvarandi verkefni stjórnvalda á hverjum tíma. Sú vinna er í gangi meðal annars í tengslum við nýtt hættumat og endurskoðun þjóðaröryggisstefnu Íslands á vettvangi Þjóðaröryggisráðs. Fregna af hvoru tveggja er að vænta á seinni hluta þessa árs.“
Hún sagði utanríkisstefnu Íslands skýra. „Ísland er og verður herlaus þjóð sem byggir fullveldi sitt á virðingu fyrir alþjóðalögum og virku samstarfi við önnur ríki á vettvangi alþjóðastofnana.“
Þá tók hún sérstaklega fram að Ísland sé málsvari friðar og afvopnunar. Það sé mikilvægt að hafa í huga nú þegar mörg ríki heims auki útgjöld til hermála.
Katrín benti á að við stöndum frammi fyrir alvarlega kreppu í matvælaframleiðslu heimsins.
„Afleiðingar þessa sjáum við birtast í verðbólgu og verulegri hættu á efnahagssamdrætti sem skapar kjörlendi fyrir lýðskrumara sem jafnan hafa á reiðum höndum einföld svör við flóknum spurningum.“
Mikilvægt sé að horfast í augu við það að orka, matur og vatn, og land eftir atvikum, feli í sér mikilvægar pólitískar áskoranir fyrir Íslendinga.
„Orkuauðlindin og yfirráð yfir henni eru hluti af fullveldi okkar. Þar blasa við ýmis álitamál þegar við viljum tryggja orkuskipti til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvána. Það er okkar stjórnmálamanna að tryggja að þau umskipti þjóni því markmiði að tryggja lífsgæði íslensks almennings samhliða því að ná árangri í loftslagsmálum.“
Tryggja þurfi hið dýrmæta jafnvægi milli verndar og nýtingar.
Þá ræddi Katrín um vindorkuna og mikilvægi þess að marka ramma utan um það hvernig arðurinn af þeirri nýju auðlind, verði látinn renna til samfélagsins.
„Við þurfum líka að marka ramma utan um það hvernig arðurinn af nýrri auðlind – beislun vindorkunnar – renni til samfélagsins. Þar þurfum við að skrifa leikreglurnar nú þegar, því staðan er sú að einkaaðilar, innlendir og erlendir, hafa merkt sér svæði víða um land sem þeir telja ákjósanleg til nýtingar.“
Þó heimurinn sé harður telur Katrín margt jákvætt vera að gerast á Íslandi.
Niðurstöður lífskjararannsóknar Hagstofunnar fyrir árin 2019 til 2021 sýni að hlutfall heimila, sem eigi erfitt með að láta enda ná saman, hefur aldrei mælst lægra og færri telja byrði húsnæðiskostnaðar þungan.
„Hlutfall heimila sem segjast búa við efnislegan skort er nálægt sögulegu lágmarki og aldrei hafa færri heimili sagst eiga í erfiðleikum með að mæta óvæntum útgjöldum.“
Hún lýsti því þá yfir að húsnæðismál væri nú sett í forgang, enda eitt stærsta kjaramál heimilanna. Stærsta verkefnið sé að tryggja aukið húsnæðisöryggi. Gott samstarf ríkis og sveitarfélaga skipti hér miklu máli.
„Aukin umsvif efnahagslífsins í kjölfar Covid eru jákvæð en auka hættuna á ofþenslu samhliða aukinni óvissu og versnandi verðbólguhorfum bæði hér heima og alþjóðlega. Þar valda mestu stríðsátökin í Úkraínu sem hafa áhrif á aðfangakeðjur og hrávöru- og orkuverð um víða veröld. Við erum í góðri stöðu til að mæta þessum áskorunum, erum til að mynda ekki eins háð innfluttri orku eins og fjölmargar þjóðir Evrópu.“
Katrín benti á að stoðum undir atvinnu- og efnahagslíf hafi verið að fjölga og þær styrktar á undanförnum árum. Sóknarfærin séu óteljandi í hugverkageiranum, sem sé hin nýja stoð útflutnings á Íslandi.
Katrín sagði neyðarástand blasa við í loftslagsmálum, taki ríki heims ekki höndum saman um árangursríkar aðgerðir.
„Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið, raunhæfar áætlanir og lagt fram fjármagn til að fylgja þeim eftir. Sá metnaður og áhugi sem ég finn í samfélaginu öllu er áþreifanlegur, almenningur og atvinnulíf leita stöðugt nýrra og skapandi lausna til að draga úr losun sem skila oft líka betri lífsgæðum og aukinni hagkvæmni gegn loftslagsvánni.“
Katrín hefði viljað heyra meiri umræðu um leikskóla og grunnskóla í aðdraganda sveitarstjórnakosninga í vor. Skólakerfið sé vafalaust eitt mikilvægasta jöfnunartækið sem samfélagið hafi.
„Í skólanum koma börn saman með ólíkan bakgrunn og mynda samfélag með kennurum og öðru starfsfólki. Þar koma saman kennarar, nýir og gamlir, og byggja upp og undirbúa nýjar kynslóðir sem erfa munu landið. Skólinn er staður þekkingar og menntunar, en líka griðastaður, staðurinn sem öðrum fremur getur tryggt jöfn tækifæri þar sem hæfileikar allra fá notið sín.“
Lýðræði og mannréttindi eru hugtök sem allir nemendur eiga að öðlast skilning og þekkingu á, að mati Katrínar.
„Lýðræðið hefur átt undir högg að sækja og við verðum stöðugt að halda vöku okkar. Lýðræðið getur horfið á einni svipstundu, jafnvel þótt það hafi lengi verið við lýði. Í dag er lýðveldið Ísland 78 ára. Látum lýðræðið verða okkar leiðarljós á þessum þjóðhátíðardegi og öllum þeim dögum sem á eftir honum koma. Lýðræðið á að vera sú saga, það ljóð, sem við kjósum okkur til handa alla tíð.“
Þá óskaði hún Íslendingum til hamingju með þjóðhátíðardaginn.