Stöðva aðra framkvæmd hjá Skógræktinni

Skipulagsfulltrúi Skorradalshrepps hefur stöðvað gróðursetningu sem Skógræktin stendur fyrir.
Skipulagsfulltrúi Skorradalshrepps hefur stöðvað gróðursetningu sem Skógræktin stendur fyrir.

Skipulagsfulltrúi Skorradalshrepps hefur stöðvað aðra framkvæmd hjá Skógræktinni, í þetta sinn í landi Bakkakots á Botnsheiði. Þetta staðfesta skipulagsfulltrúi og skógræktarstjóri. Um er að ræða gróðursetningu birkis, að sögn Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra, og er tilgangurinn að efla útbreiðslu birkis á svæðinu. „Okkur finnst ekki vera tilefni til að stöðva framkvæmdina, af því að þetta er klárlega á landi í eigu Skógræktarinnar,“ segir Þröstur. „Þetta er líka klárlega í fullu samræmi við stefnu sveitarfélagsins að auka útbreiðslu birkis á þessu svæði og við skiljum ekki hvað sveitarfélagið getur haft á móti því.“

Sigurbjörg Ósk Áskelsdóttir, skipulagsfulltrúi Skorradalshrepps, segir aftur á móti að framkvæmdin samræmist ekki stefnu aðalskipulags Skorradalshrepps, en verið var að gróðursetja fyrir ofan 300 metra hæðarlínu. „Það var óskað eftir stöðvun á miðvikudagsmorgun á grundvelli 53. gr. skipulagslaga þar sem um er að ræða óleyfisframkvæmd,“ segir Sigurbjörg. Framkvæmdin var stöðvuð að morgni fimmtudags. Þröstur segir óvanalegt að tvær framkvæmdir Skógræktarinnar hafi verið stöðvaðar á skömmum tíma. Framkvæmdin við Botnsheiði var ekki tilkynnt til skipulagsnefndar og segir Þröstur að ekki sé venja fyrir því þegar um land Skógræktarinnar er að ræða. „Þetta er það sem hreppurinn segir að við hefðum átt að gera, því erum við bara ekki sammála. En fyrir það er náttúrlega vettvangur þar sem þetta verður útkljáð.“

Vonar að sveitarstjórn leggi fram kæru

Skipulagsfulltrúi stöðvaði óleyfisframkvæmd í hlíðum Dragafells fyrr í mánuðinum þar sem Skógræktin var að ryðja veg. Er vegurinn utan skógræktarsvæðis, samkvæmt aðalskipulagi Skorradalshrepps. Hulda Guðmundsdóttir, skógarbóndi á Fitjum í Skorradal, kærði framkvæmdina til lögreglu á þriðjudag. „Ég bíð spennt eftir því að fá að vita hvort kæran verði samþykkt og vona að sveitarstjórn muni einnig kæra fyrir þessar ólöglegu aðgerðir,“ segir Hulda. „Það finnst mér að hljóti bara að vera, sérstaklega í ljósi þess að Skógræktin virðist nú halda bara áfram, það er mjög skrýtið.“

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert