Guðrún Ýr Sigbjörnsdóttir, 47 ára móðir og flugfreyja til 20 ára, útskrifaðist á dögunum úr ÍAK einkaþjálfun hjá Heilsuakademíu Keilis með glæsibrag, en hún hlaut meðaleinkunnina 9,88.
Að sögn Guðrúnar fann hún sig um leið og hún hóf nám sitt við Keili. „Ég bara fann mig strax á fyrsta degi eftir að hafa verið í flugfreyju gallanum og í háum hælum síðastliðin 20 ár, að mæta í skólann og að fá að vera í mínum íþróttafötum og hitta fólk sem brennur fyrir hreyfingu og íþróttum,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Guðrún er með BS próf í landfræði við HÍ og Handelshögskolan í Gautaborg og MS próf í markaðsfræði- og alþjóðaviðskiptum við HÍ.
Samhliða námi sínu við Keili hefur hún lagt stund á viðbótardimplómunám á framhaldsstigi í menntun framhaldsskólakennara við HÍ.
Aðspurð segir hún að skipulag skiptir öllu máli hvað varðar velgengni í námi.
„Að vera skipulagður skiptir öllu máli og að byrja strax að læra. Vinna jafnt og þétt yfir önnina,“ segir hún og bætir við að best sé að ganga beint til verka án þessa að flækja þau fyrir sér.
Guðrún kveðst vera þakklát fyrir tíma sinn í Heilsuakademíu Keilis og segir útskriftardaginn hafa verið hátíðlegan.
„Hann var mjög hátíðlegur og skemmtilegur, það var mjög gott veður. Það var athöfn í Keili og svo hélt ég litla veislu fyrir fjölskyldu og vini heima. Ég er alltaf að útskrifast úr einhverju, mamma sagðist einmitt ekki ætla að mæta þar sem hún hefur mætt í alltof margar útskriftir hjá mér“ segir hún og hlær.
Guðrún mun kenna hóptíma hjá Hreyfingu sem einblína á hlaup og styrktaræfingar.
„Ég er búinn að fá vinnu hjá Hreyfingu með haustinu, og ég mun kenna tíma sem heita hlaup og lyftingar. Í dag er ég utanvegahlaupari og það er sú hreyfing sem ég stunda mest. Hlauparar eru voðalega latir við að stunda styrktaræfingar, og það er gríðarlega mikilvægt fyrir hlaupara að stunda slíkar æfingar þar sem þær geta komið í veg fyrir meiðsli“.
Guðrún hefur einnig velt fyrir sér að bjóða upp á hóptíma sem einblína á hreyfingu út í náttúrunni.