Farþegarnir loks á leið í land

Ferjan Baldur var á reki skammt fyrir utan Stykkishólm.
Ferjan Baldur var á reki skammt fyrir utan Stykkishólm. mbl.is/Einar Falur

Loks er farþegaferjan Baldur á leið til hafnar í Stykkishólmi eftir að hafa verið á reki um 300 metra frá landi í rúmar fimm klukkustundir. Þetta staðfestir Gunn­laugur Grett­is­son­, fram­kvæmda­stjóri Sæ­ferða, í samtali við mbl.is.

Hann segir að Baldur sigli mjög hægt, um tvo hnúta, og sé með björgunarbátinn Björg bundinn við framenda ferjunnar til halds og trausts ef eitthvað kæmi upp á.

„Menn fara mjög rólega en það er stefnt að því að hann verði kominn að landi eftir korter til 20 mínútur. Þegar hann kemur þangað verður farið í að tæma skipið,“ segir Gunnlaugur og bætir við að rúta bíði farþeganna sem muni fara með þá sem vilja í hús Sæferða þar sem boðið verður upp á súpu.

Þá verður hjúkrunarfræðingur á staðnum fyrir þá sem þurfa áfallahjálp eða annað slíkt.

Síðari ferð Baldurs í dag yfir Breiðafjörðinn er felld niður.

„Það verður farið í að skoða ferjuna í kvöld og í nótt. Þetta virkar ekki eins og við hefðum viljað að það gerði. Ef allt gengur á besta veg er stefnt að því að sigla á morgun,“ segir Gunnlaugur og bætir við að það verði tilkynnt síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert