Lögregla stöðvaði ökumann í Breiðholti í gærkvöldi en bifreið hans mældist á 141 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Ökumaðurinn var handtekinn þar sem hann ók undir áhrifum áfengis og fíkniefna og var sviptur ökuréttindum.
Annar ökumaður í sama hverfi var stöðvaður þar sem hann ók á 66 km/klst þar sem hámarkshraði er 30 km/klst, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Alls voru 60 mál skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 17.00 í gær og þar til klukkan 05.00 í morgun. Þrír gista fangageymslur eftir nóttina.
Karlmaður í Kópavogi var handtekinn vegna líkamsárásar. Hann var vistaður í fangageymslu í stutta stund þar til tekin var skýrsla af honum.
Þá voru níu ökumenn stöðvaðir grunaðir um að aka undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.