Ísland ekki líklegur brautryðjandi

Fram kemur í umfjöllun Sunnudagsblaðsins að hópur sprautufíkla á Íslandi …
Fram kemur í umfjöllun Sunnudagsblaðsins að hópur sprautufíkla á Íslandi sé frekar lítill. Ómar Óskarsson

„Ísland, sem nýbúið er að leyfa bjór, er ekki líklegur brautryðjandi að breyttri fíkniefnapólitík, þótt hægt sé að taka smærri skref. Þetta er alþjóðlegur vandi og farsælast að leysa hann í samstarfi við aðrar þjóðir.“

Þetta segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og doktor í félags- og afbrotafræði, í umfjöllun um fíkniefnamarkaðinn á Íslandi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Spurður hvort það sé eitthvað sem lögregla geti gert sem hún er ekki að gera nú þegar og hvort við séum að missa af einhverjum tækifærum, svarar Helgi:

„Lögreglan er einfaldlega að fylgja lögum landsins. Í grunninn vinnur hún eins og lögreglan í nágrannalöndunum og eins og þetta nýja mál sýnir er góð samvinna í gangi við til dæmis Europol. Eigi að skipta um kúrs er það fyrst og fremst pólitísk spurning.“

Helgi Gunnlaugsson.
Helgi Gunnlaugsson.


Oft er sagt að stríðið gegn fíkniefnum sé tapað en Helgi er þeirrar skoðunar að það sé orðum aukið. „Þegar allt kemur til alls er fíkniefnaneysla á Íslandi í reynd mjög lítil og miklu minni en til dæmis áfengisneysla. Hugsanlega er pottlok á þessum markaði sem bannið veitir þótt andstaðan við fíkniefni sé einnig félags- og menningarleg. Brýnast er að nálgast betur fólk með fíknivanda eins og þau sem sprauta sig í æð og huga að forvörnum. Eldra fólkið hefur mun meiri áhyggjur af fíkniefnum en það yngra enda með börnin og barnabörnin sín í huga stundum í neyslu. Yngra fólkið hefur minni áhyggjur.“

Helgi minnir á að dregið hafi úr áfengisvanda ungs fólks eftir að bjórinn var leyfður árið 1989, auk þess sem verulega hafi dregið úr tóbaksnotkun án refsilíkansins. Í dag fer íslenska forvarnarmódelið Planet Youth sigurför um heiminn þar sem refsivöndurinn kemur hvergi við sögu. Forvarnir skipti því óneitanlega miklu máli.

Umræðan mætti vera þroskaðri

Að áliti Margrétar Valdimarsdóttur, doktors í afbrotafræði og dósents í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri, mætti umræðan um fíkniefni vera þroskaðri hér á landi. Mikilvægt sé til dæmis að hætta að tala um stríð gegn fíkniefnum. Slík geri ekkert gagn. Hún segir umræðuna um afglæpavæðingu neysluskammta gagnlega enda sé þar verið að koma til móts við verst stadda hópinn sem lifi og hrærist í heimi sem umfram annað einkennist af ofbeldi og eymd.

„Í þeim heimi er mikið um afbrot af öðru tagi og úr því viljum við draga. Við megum samt ekki láta eins og eina lausnin sé að lögleiða fíkniefni. Fíkniefni eru auðvitað ekki hættulaus, þau geta verið mjög skaðleg. Það á ekki síst við um andlega heilsu en fólk sem er veikt fyrir leitar gjarnan í neyslu.“

Margrét Valdimarsdóttir.
Margrét Valdimarsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson


Hún segir þessa umræðu þrátt fyrir allt hafa breyst mikið hér á landi á undanförnum áratug eða svo. Flestir séu hættir að líta á það sem alvarlegan glæp að nota fíkniefni. Það sé jákvætt enda snúist baráttan um að hafa hendur í hári sölumannanna en ekki neytendanna. Þeir séu skaðvaldurinn. „Í mínum huga ætti að vera forgangsatriði að draga úr eymdinni sem fylgir mikilli neyslu, þar með talið að draga úr fordómum gegn fólki sem notar fíkniefni.“

Að sögn Margrétar er ósennilegt að afglæpavæðingin, ein og sér, auki fíkniefnaneyslu ungs fólks. Það sé til dæmis magnað hversu mikið hafi dregið úr áfengisneyslu ungmenna á Íslandi á umliðnum 20 til 30 árum og áfengi er vitaskuld löglegt. Þökk sé forvörnum. „Sá árangur er engin tilviljun; það hefur verið mikið átak í gangi, til dæmis með greiðari aðgangi að tómstundum, íþróttum og öðru slíku.“

Nánar er fjallað um fíkniefnamarkaðinn á Íslandi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert