Leiðangurstjaldið týndist í nótt

Hópur vísindamanna frá NASA er nú við rannsóknir við Sandvatn. …
Hópur vísindamanna frá NASA er nú við rannsóknir við Sandvatn. Tjald sem þau notuðu sem bækstöð fauk og týndist í rokinu í nótt. mbl.is/Árni Sæberg

Hópur vísindamanna á vegum bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA varð fyrir því óláni síðustu nótt að stórt tjald sem þeir notuðu sem bækistöð fauk út í buskann. Þau eru að rannsaka Sandvatn sunnan við Langjökul og safna þar vatns- og setlagasýnum.

Leiðangurstjaldið er af gerðinni North Face, appelsínugult og grátt að lit, og rúmar tólf manns. Áður en hópurinn hélt heim af vettvangi í gærkvöld var reynt að festa tjaldið sérstaklega vel í ljósi tvísýnnar veðurspár. Meðal annars var þungum steinum raðað á brúnir þess. 

Þegar leiðangursmenn komu að Sandvatni í morgun sást hvorki tangur né tetur af tjaldinu. Gunnar Guðjónsson hjá Iceland Space Agency sagði að vindurinn hafi verið norðanstæður og vindhviður við Sandvatn líklega náð allt að 30 m/s í nótt.

Tjaldið hefur líklega fokið suður á Haukadalsheiði. Finni einhver tjaldið er hann beðinn um að hafa samband við Gunnar í síma 697 7840.  

Tjaldið er fremur sérkennilegt í útliti.
Tjaldið er fremur sérkennilegt í útliti. Ljósmynd/Gunn­ar Guðjóns­son
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert