Ólíklegt að nýjar virkjanir verði reistar

Gagnaver á Blönduósi.
Gagnaver á Blönduósi. mbl.is

Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS orku segir í samtali við mbl.is að nokkuð ólíklegt væri að nýjar virkjanir yrðu reistar hér á landi í því skyni að afla orku fyrir gagnaver. 

Virkjanir hafa verið mikið á milli tannanna á fólki undanfarið í kjölfar þess að ný rammaáætlun var samþykkt sem færði nokkur svæði úr verndunarflokki og yfir í biðflokk.

Til dæmis gagnrýndi Jón Kaldal, fyrrverandi ritstjóri Fréttatímans, möguleikann á virkjunum í færslu sinni á Twitter og tók fram að til allra heimila landsins færi minna rafmagn en til gagnavera.

Ólíklegt en möguleiki að reisa virkjun fyrir gagnaver

Jóhann Snorri segir það þó ólíklegt að virkjanir yrðu reistar í þeim tilgangi að veita gagnaverum orku og að þau séu ekki helsta ástæðan fyrir því að það yrði virkjað meira á Íslandi.

Þó tekur Jóhann Snorri fram að mögulegt sé að gera þannig langtímasamning við gagnaver í eigu stórfyrirtækja á borð við Google, Microsoft eða önnur slík fyrirtæki að það myndi borga sig að reisa virkjun.

Bendir Jóhann þó á að það að virkja sérstaklega fyrir gagnaver myndi teljast sérstakt. 

Gagnaver og heimili

Spurður um það hvort það fari meiri orka í gagnaver heldur en öll heimili á landinu segir Jóhann það ekki vera alveg svo einfalt.

„Þessi staðhæfing að gagnaver noti meiri orku en heimili landsins er í rauninni bjánaleg tilvísun sem kom frá mér upprunalega og hefur farið svolítið víða,“ vísar Jóhann þar til viðtals sem hann veitti Morgunblaðinu fyrr á þessu ári.

„Orkunotkun gagnavera á síðustu tólf mánuðum er meiri en á heimilum en að sama skapi er afl notkunin einungis helmingurinn af því sem að heimilin þurfa,“ segir Jóhann og ítrekar með því að ef gagnaver og heimili nota sama magn af orku þá þurfa heimilin tvöfalt meira magn af afli eða megavött. 

„Þú notar allt aðra raforku í gagnaver heldur en þú notar í heimili.“

Þá bendir Jóhann á að mest af orkunni sem er framleidd hér á landi er notuð í stóriðju. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka