Óvenju annasamur dagur hjá björgunarsveitum

Annasamt hefur verið hjá björgunarsveitum landsins í dag.
Annasamt hefur verið hjá björgunarsveitum landsins í dag. mbl.is/​Eggert

Dagurinn hefur verið óvenju annasamur hjá björgunarsveitum víða um land segir í tilkynningu frá Davíð Má Bjarnasyni, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Meðal annars vegna þotu á Keflavíkurflugvelli, tjalda og fellihýsa sem fuku á Laugarvatni og konu sem slasaðist á Helgafelli. 

Dagurinn hófst á óveðursverkefnum í Vestamannaeyjum og Grímsnesi upp úr klukkan sex í morgun.

Mastur var við það að falla við höfnina í Vestmannaeyjum og trampólín var að fjúka í Grímsnesi. Björgunarsveitarfólk reddaði málunum í snarheitum í báðum tilfellum, mastrið var fellt og böndum komið á trampólínið.

Klukkan 6:08 voru björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar settir í viðbragðsstöðu vegna óvissustigs á Keflavíkurflugvelli vegna þotu í vandræða. Verkefnið leystist fljótt og var útkallið afturkallað korteri síðar.

Fellhýsi og tjöld fuku

Gul veðurviðvörun er í gildi á Suðurlandi og Austurlandi og var því töluvert af útköllum á því svæði. 

Björgunarsveitin á Seyðisfirði kippti á land árabáti sem var við það að sökkva við höfnina í bænum.

Þá var björgunarsveitin á Laugarvatni kölluð til á tjaldsvæðið þar sem tilkynning hafði borist um tjöld og fellihýsi að fjúka.

Upp úr hádegi óskaði Vegagerðin eftir aðkomu björgunarsveita vegna mjúkrar lokunar á þjóðveginum um Skeiðarársand við Skaftafell.

Slösuð kona ofarlega í Helgafelli

Rétt fyrir klukkan eitt barst björgunarsveitum í Hafnarfirði og Garðabæ útkall vegna slasaðrar konu ofarlega í Helgafelli.

Sjúkraflutningamenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins komu á vettvang sem var í brattlendi og þurfti því mikinn búnað til að tryggja öryggi á vettvangi. Því var óskað eftir að konan yrði sótt á af þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Sjóbjörgunarsveitir taka nú einnig þátt í aðgerðum á Suðausturlandi og Fáskrúðsfirði vegna skútu í vandræðum utan við Djúpavog. Tveir í áhöfn skútunnar eru slasaðir og skútan löskuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka