Guðni Nathan Gunnarsson er einn fárra sem hafa gengið í gegnum grunnnám og eitt ár í framhaldsnámi við Háskólann í Reykjavík (HR) með því að greiða einungis fyrir eina skólaönn af námi sem hefði annars kostað hann tæplega tvær milljónir króna.
Þá hefur hann einnig hlotið fullan stryk til þess að stunda framhaldsnám í tölvunarfræði við bandaríska háskólann Princeton, og sparar því um 120 þúsund dollara í skólagjöld, eða tæplega 16 milljónir króna. Eftir sex ára nám mun Guðni því einungis hafa greitt um 250 þúsund krónur fyrir námsferil sem hefði annars kostað hann um 18 milljónir króna.
Inntur eftir því hvort áhuginn á tölvunarfræði hafi alltaf verið fyrir hendi segir Guðni svo hafa verið. „Mér er sagt að um leið og ég var byrjaður að labba hafi ég sótt í alla takka á tækjum. Þegar ég var í leikskóla er mér sagt að ég hafi spilað einhvern tölvuleik svo vel að leikskólakennararnir héldu að ég hefði lesið leiðbeiningarnar, en ég var bara þriggja ára og auðvitað gat ekkert lesið. Tölvuleikirnir vöktu síðan áhuga minn á forritun, mig langaði mikið til að gera mína eigin leiki eða að „modda“ [breyta tölvuleikjunum þannig að spilunin verði öðruvísi] leiki eins og Minecraft. Ég var 15 ára þegar ég byrjaði fyrst að forrita fyrir alvöru,“ segir Guðni og bætir við að stefnan sé sett á að vinna við forritun tölvuleikja í framtíðinni.
Guðni segist hafa lært að meðaltali tíu til tólf tíma á dag alla daga vikunnar í HR. „Sumar vikur var tiltölulega lítið að gera en aðrar var ég myrkranna á milli að læra og vinna verkefni.“
Hann komst á forsetalista skólans öll þau ár sem hann stundaði grunnnámið í tölvunarfræði og fékk því skólagjöldin endurgreidd allar annirnar nema þá fyrstu. Guðni heyrði fyrst af listanum á fyrstu önn sinni í skólanum og segir að markmiðið hafi strax verið sett á að komast á hann. „Það tókst, þannig að næstu önn langaði mig ekkert að gera verr,“ segir Guðni og bætir við að árangurinn hefði líklegast ekki náðst ef hann hefði ekki verið í góðum vinahópi sem lærði saman. „Síðan á ég líka frábæra fjölskyldu sem studdi við mig þó að ég væri alltaf að læra.“
Hann hefur nú lokið einu ári í framhaldsnámi við HR og hlaut svokallaðan Alan Turing-styrk tölvunarfræðideildarinnar fyrir að vera með meðaleinkunn yfir níu. Frá byrjun þessa árs hefur Guðni verið í starfsnámi hjá tölvuleikjafyrirtækinu Myrkur Games samhliða náminu og mun halda þar áfram í sumar áður en hann flytur til Bandaríkjanna í ágúst.
Hann er einn af tíu einstaklingum sem hljóta inngöngu í framhaldsnámið í tölvunarfræði í Princeton. Þá mun Guðni einnig sinna kennslu í skólanum og fær fyrir það greidda um 42 þúsund dollara á ári eða tæplega sjö milljónir króna. „Það er náttúrlega svolítil pressa á mann að gera vel, en ég er ótrúlega spenntur fyrir þessu,“ segir Guðni að lokum.