UMFÍ varar forsvars- og starfsfólk íþrótta- og ungmennafélaga við svikapóstum sem netsvikahrappar eru að senda þessa dagana í þeim tilgangi að stela af íþróttafélögum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu þar sem segir að svikapóstarnir séu í formi tölvupósta sem líkjast tölvuskeytum frá formanni eða framkvæmdastjóra félaga.
Skeytin eru send gjaldkerum eða öðrum starfsmönnum félaga sem svikahrapparnir telja að hafi prókúru fyrir reikningum.
„Nú er að ganga svikapóstur sem í segir að forráðamaður félaga hafi pantað íþróttahluti í Þýskalandi. Eins og áður er sagt liggja á að móttakandi millifæri tiltekna upphæð vegna kaupanna yfir á erlendan reikning.“
Þá segir að besta leiðin til að bregðast við póstunum sé að gjaldkeri, fjármálastjóri eða hver sá sem fær póst í nafni formanns eða framkvæmdastjóra félags, hringi í viðkomandi og kanni hvort hann hafi sent skeytið.
„Svikapóstar hafa áður verið sendir starfsfólki íþrótta- og ungmennafélaga. Upphæðirnar sem þar er óskað eftir að verði millifærðar voru frá nokkuð hundruð þúsund krónum og upp á nokkrar milljónir króna sem óskað var eftir að sendir yrðu á reikninga í Bretlandi og Ítalíu.“
Að lokum bendir UMFÍ á að mikilvægt sé fyrir fyrirtæki sem fá svikapóst að hafa samband við viðskiptabanka félagsins og tilkynna málið til lögreglu.