Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, segir að ferð Breiðafjarðarferjunnar Baldurs frá Stykkishólmi í dag hafi gengið mjög vel. „Allt virkar eins og það á að virka,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Baldur var á reki um 300 metra frá landi í rúmar fimm klukkustundir í gær vegna bilunar.
Ferjan sigldi frá Brjánslæk kl. 18:30 og gengur ferðin vel. „Það er greinilegt miðað við virkni og viðbrögð í dag að það er allt í fínu standi.“
Spurður um framhaldið segir Gunnlaugur að siglt verði samkvæmt sumaráætlun.
„Við erum ekki að sigla á styrk eða neinu slíku við erum bara að sigla til þess að þjónusta þá farþega sem eru að fara þarna yfir og við erum ekki með neinn samning við Vegagerðina yfir sumartímann, þannig að við gerum bara ráð fyrir því að halda því áfam, allavega þangað til annað verður ákveðið og vonandi gengur það bara vel.“
„Við viljum ítreka að okkur þykir þetta leiðinlegt, það sem gerðist í gær.“
„Það sem tafði okkur einna mest í gær var að þarna er mjög erfiður botn, við hentum út akkeri og það var erfitt að ná því upp aftur.
En það var líka gott af því að þá hélt það skipinu vel á meðan að það þurfti að halda því. Þetta voru svona aðeins krefjandi aðstæður í gær en við erum ánægð með að það sé fyrir aftan okkur,“ segir Gunnlaugur.