Baldur siglir síðar í dag

Ferjan Baldur skammt fyrir utan Stykkishólm.
Ferjan Baldur skammt fyrir utan Stykkishólm. mbl.is/Einar Faldur

Breiðafjarðarferjan Baldur siglir seinni ferð dagsins í dag samkvæmt áætlun, að því er kemur fram í tilkynningu á vef Sæferða. Baldur var á reki um 300 metra frá landi í rúmar fimm klukkustundir í gær vegna bilunar.

Fyrri ferð dagsins var aflýst en Baldur átti að sigla frá Stykkishólmi klukkan korter í átta í morgun.

Segir í tilkynningu að vélstjórar Baldurs ásamt sérfræðingi hafi í gær fundið 8mm koparrör sem lak og getur það hafa orsakað þau vandamál sem glíma þurfti við í gær.

Allt virkar eins og það á að gera

„Skipt var um rörið og framkvæmd prufa við bryggju og var virkni góð. Í kjölfarið var sigld prufusigling og framkvæmdar voru margskonar prófanir og sama niðurstaða, allt að virka eins og það á að gera. Í því ljósi hefur verið ákveði að sigla seinni ferð dagsins skv. áætlun í dag sunnudag með viðkomu í Flatey.“

Brottför frá Stykkishólmi er því kl. 15:15 og frá Brjánslæk kl. 18:30.

„Við biðjum alla farþega okkar sem urðu fyrir röskun á þeirra ferðaplönum í gær og í dag afsökunar á óþægindunum og þökkum þeim fyrir skilninginn og þeirra viðbrögð,“ segir að lokum í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka