Datt af hjóli og var fluttur á bráðadeild

mbl.is/Eggert

Tilkynnt var um reiðhjólaslys á sjöunda tímanum í gærkvöldi en þá datt karlmaður af hjóli og slasast á mjöðm og víðar. Hann hlaut miklar höfuðkvalir og sjóntruflanir.

Maðurinn var ekki með hjálm en hann var fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild til aðhlynningar.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem farið er yfir helstu verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá 17.00 í gær til klukkan 05.00 í morgun. Á þeim tíma voru 115 mál skráð hjá lögreglu og fjórir vistaðir í fangageymslu.

Nokkuð var um tilkynningar vegna hávaða þar sem fólk var að fagna námsáföngum og þrjár tilkynningar bárust um minniháttar líkamsárásir í miðborginni.

Lögreglu var tilkynnt um mann sem var að stela rafmagnshlaupahjóli í Fossvoginum á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Sá sem tilkynnti málið hljóp á eftir manninum og kom að þar sem hinn grunaði rétti öðrum manni hjólið.  Sá sagði vin sinn eiga hjólið en hljóp á brott er tilkynnandi sagði það ekki vera rétt.

Þá voru nokkrir ökumenn stöðvaðir grunaður um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka