„Ekki vera dicks“ titillinn á lokaritgerðinni

Berglind Birta Jónsdóttir og Elísabet Ósk Maríusdóttir.
Berglind Birta Jónsdóttir og Elísabet Ósk Maríusdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Ekki vera dicks“: áhrif samskipta við lögregluna á viðhorf og traust ungs fólks til lögreglunnar er titilinn á lokaritgerð Elísabetar Óskar Maríusdóttur og Berglindar Birtu Jónsdóttur í lögreglu- og löggæslufræðum við Háskólann á Akureyri. Í samtali við mbl.is segir Elísabet að fyrirsögnin hafi komið úr svari við spurningarkönnun verkefnisins um hvort þátttakendur hefðu tillögur að því hvað lögreglan geti gert betur er kemur að samskiptum við almenna borgara.

Stöllurnar starfa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og segir Elísabet að þær hafi fundið fyrir vanþekkingu ungs fólks á störfum lögreglunnar.

Samskipti oft krefjandi

Hún segir að hugmyndin að efninu hafi komið fyrsta sumarið er hún starfaði í lögreglunni.

„Þá var ég að vinna úti á landi og tók eftir því að það voru mismunandi hópar af unglingum í bænum, við höfðum oft afskipti af öðrum hópnum en ekki hinum en ég veitti því athygli að hópurinn sem við höfðum aldrei afskipti af virtist samt vera illa við okkur og ég fékk það á tilfinninguna að þeir þekktu okkur bara ekki til dæmis þegar þau kalla til okkar „black lives matter“ og svoleiðis. Ég hugsaði ég að þau skilji kannski ekki okkar störf.

Hópurinn sem við höfðum afskipti af voru kannski ekki alltaf ánægð með afskiptin en það voru samt aldrei leiðindi, þau spjölluðu við okkur og spurðu margra spurninga og ég fann það að ef maður gaf sér tíma til að spjalla við þau og svara spurningum þá skildu þau yfirleitt nokkuð sátt við okkur,“ segir Elísabet. 

Berglind segir að áhugi hennar á efninu hafi komið eftir að hafa starfað í einhvern tíma í lögreglunni og tekið eftir því hvað samskipti lögreglunnar við ungt fólk geti verið mjög krefjandi og oft á tíðum viðkvæm.

„Mér fannst áhugavert að reyna varpa ljósi á viðhorf ungs fólks og öðlast betri innsýn inn í hvaða þættir það eru sem stuðla að jákvæðu eða neikvæðu viðhorfi ungs fólks til lögreglunnar.“

467 svöruðu spurningalistanum

Hluti af ritgerðarvinnunni fólst í að senda spurningalista til einstaklinga á aldrinum 15-25 ára um viðhorf til lögreglunnar.

Til að byrja með sendu þær könnunina á fjölmargar félagsmiðstöðvar í framhaldsskólum, þá deildu þær henni einnig á Facebook. 

Í heildina svöruðu 467 einstaklingar könnunni og segir Elísabet að það hafi tekið þær um tvær vikur að vinna úr gögnum, samhliða starfi.

Bein samskipti leiðir til meira trausts

„Á heildina litið báru þátttakendur í okkar könnun nokkuð mikið traust og jákvætt viðhorf til lögreglunnar, sem er í samræmi við t.d. kannanir Gallup og Félagsvísindastofnunar HÍ, en hlutfallið var samt lægra í okkar könnun af því að meirihluti þátttakenda hjá okkur var undir 25 ára aldri og traust til lögreglu mælist yfirleitt minnst í þeim aldurshópi samkvæmt könnunum Félagsvísindastofnunar HÍ,“ segir Elísabet.

Þá greindu þær niðurstöðurnar nánar eftir aldri og lögðu áherslu á aldurshópinn 25 ára og yngri.

„Þá kom til dæmis í ljós að ungt fólk sem hefur átt í beinum samskiptum við lögreglu treysti lögreglunni frekar en þeir sem hafi ekki átt í slíkum samskiptum. Þeir sem sögðu viðhorf sitt til lögreglunnar vera betra eftir að hafa átt bein samskipti við lögregluna treystu lögreglunni frekar en þeir sem hafa aldrei átt í beinum samskiptum við lögregluna,“ segir Elísabet.

Hvernig viðhorf 13 til 15 ára breyttist

Í könnuninni var líka spurt út í viðhorf þátttakenda þegar þeir voru á aldrinum 13 til 15 ára og hvernig viðhorfið hefur breyst síðan þá.

Niðurstöðurnar benda til þess að þeir sem hafi leitað til lögreglu á þessum aldri beri minna traust til lögreglu í dag og séu einnig líklegri til þess að hafa neikvætt viðhorf til framkomu lögreglumanna.

Elísabet nefnir að þátttakendur voru einnig beðnir um að gera grein fyrir því hvers vegna traust þeirra til lögreglunnar væri meira eða minna í dag miðað við þegar þeir voru á aldrinum 13 til 15 ára.

„Þátttakendur sem sögðust bera meira traust til lögreglunnar í dag nefndu þá helst að þeir hefðu sjálfir þroskast auk þess sem þekking þeirra og skilningur á starfi lögreglunnar hefði aukist eða þróast. Þeir sem sögðust bera minna traust til lögreglunnar í dag nefndu yfirleitt ákveðin afskipti lögreglu, ýmist af þeim sjálfum eða öðrum nákomnum, sem hefði rýrt traust þeirra.“

Framkoma og samskipti skiptir miklu

Hún segir það vera áhugavert að þeir sem nefndu framkomu lögreglumanna eða sögðu samskipti við lögreglumann hafa haft áhrif á viðhorf þeirra greindu ýmist frá meira eða minna trausti.

„Sem segir okkur hvað framkoma og samskipti lögreglumanna við almenning geti haft mikið með það að segja hvort að viðhorf viðkomandi sé betra eða verra fyrir vikið.“

Elísabet bætir við að rannsóknin segi ekki nánar til um hvað það er sem valdi því að viðhorf þátttakenda sé á þann veg að lögreglan komi ekki fram við fólk af virðingu.

„Það væri áhugavert að kanna það betur með eigindalegri viðtalsrannsókn.“

Hefur rannsóknin undirstrikað fyrir ykkur mikilvægi virðingu í starfi?

„Að minnsta kosti að sýna fólki virðingu eins og hægt er, það er hægt að gera greinarmun á að bera eða sýna virðingu. Helst undirstrikar þetta bara mikilvægi góðra samskipta.“

Ekki „rólegheita starf“

Elísabet bendir þó á að starfið sé ekki „rólegheita starf“ þar sem lögreglumenn hafi alltaf tíma til þess að stoppa og útskýra nákvæmlega hvað er í gangi og hvers vegna þangað til allir eru á sömu blaðsíðunni, en það megi hafa þetta í huga.

„Það sem mér finnst líka mjög áhugavert í niðurstöðunum er þetta með að fólk beri meira traust til lögreglunnar eftir því sem það veit meira um störf lögreglunnar,“ segir Elísabet og nefnir að þær hafi lagt til tillögur í ritgerðinni hvernig megi fræða almenning um starfið.

„Til dæmis með að auka skólaheimsóknir eins og samfélagslöggur hafa verið að gera nema með meiri áherslu á framhaldsskólastigið þar sem ungt fólk er komið á þann aldur að lögreglan hefur tilefni til frekari afskipta af þeim, til dæmis þegar þau fá bílpróf, en auk þess sem þroski þeirra býður upp á að þau líti gagnrýnt á aðgerðir og vald lögreglunnar. Með þessum heimsóknum mætti fræða ungt fólk um starf lögreglunnar, réttindi og skyldur lögreglunnar en einnig rétt þeirra sjálfra gagnvart lögreglunni.“

„Við Berglind þekkjum það af eigin reynslu að meðal ungs fólks gætir oft mikils misskilnings á störfum lögreglu sem að einhverju leiti væri hægt að koma í veg fyrir með aukinni fræðslu,“ segir Elísabet að lokum.

Ritgerðina í heild sinni má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka