Rosalegt bíla-limbó á Akureyri um helgina

Margir mislágir bílar tóku þátt í keppninni.
Margir mislágir bílar tóku þátt í keppninni. Aðsend/Bergþór Dagur

Bíladagar á Akureyri kláruðust í gær eftir þriggja daga bílahátíð. Hófst hátíðin á drifti kvöldið 16. júní auk þess sem bílasýningin var á sínum stað á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Bergþór Dagur Ásgrímsson, bílaáhugamaður og umsjónarmaður facebookhópsins Bíladagar segist ánægður með helgina. „Þetta gekk bara eins og í sögu,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann segir að bílahittingur á bílaplani VMA hafi staðið upp úr. „Þar mættu einhverjir tvö þúsund manns.“

Einnig hélt Bergþór svokallað bíla-limbó, þar sem ökumenn kepptust við að koma bifreiðum sínum undir stöng líkt og í hefðbundnu límbói.

Bergþór segir mætinguna hafi verið framar vonum. „Ég bjóst ekki við því að þetta yrði svona vinsælt,“ segir hann en þetta er í fyrsta skipti sem slík keppni er haldin.

40 bílar í halarófu

Hátt í 40 bílar tóku þátt í limbóinu og því brjáluð umferð í fyrstu umferðinni.

„Fólk sem var að keyra þarna það stoppaði bara og vissi ekkert hvað var í gangi. Við þurftum að beina umferðinni framhjá.“

Þetta hafi því verið erfitt í fyrstu, enda sá Bergþór einn um þetta ásamt vini sínum Stefáni Boga. Fleiri hafi síðan stokkið til og hjálpað þeim félögum.

Bílalimbóið. Grenjandi rigning stoppaði ekki spennta áhorfendur.
Bílalimbóið. Grenjandi rigning stoppaði ekki spennta áhorfendur. Aðsend/Bergþór Dagur

Óvæntur gestur

Þá segir Bergþór að fjöldi vegfarenda hafi einnig stoppað til að fylgjast með spennandi keppninni. Fólk úti í rigningu að horfa á bíla keyra undir stöng er eflaust óvanaleg sjón.

„Fyndið, það var bíll lagður þarna fyrir og ég fór að biðja hann um að færa sig. Þá var Pétur Jóhann Sigfússon inni í honum,“ segir Bergþór og hlær.

Er hann einhver bílakall?

„Ég þekki það ekki alveg. Hann hefur örugglega bara verið að keyra framhjá og viljað sjá hvað var í gangi. Ég veit ekki hversu margir voru þarna.

Sigurbíllinn var þaklaus.
Sigurbíllinn var þaklaus. Aðsend/Bergþór Dagur

Tók þakið af bílnum

Sævar Sigurþór Kristinsson sigraði keppnina á bíl af tegundinni Mazda Mx5 – Bifreðið sem einmitt er þekkt fyrir lága hæð sína.

Bergþór segir Sævar hafi gengið skrefinu lengra og tekið þakið af bílnum til að gera bílinn lægri. „Hann vann þannig.“

Limbókeppnin var ekki hluti af formlegri dagskrá bíladaga en Bergþór segist vongóður um að Bílaklúbbur Akureyrar taki keppnina inn í prógramið á næsta ári.

Eldur að koma úr púströrum

Auk bíla-limbósins nefnir Bergþór hávaðakeppni sem áðurnefndur Stefán sá um. Keppnin snerist um það, líkt og nafnið ber að kynna, hvaða bíll gæti framkallað sem mesta hávaðann.

„Þar var eldur að koma úr púströrum,“ segir Bergþór en Stefán Illievski fór þar með sigur af hólmi.

Stefán Illievski fór með sigur af hólmi í hávaðakeppninni.
Stefán Illievski fór með sigur af hólmi í hávaðakeppninni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka