Sögukvöld vegna Alþjóðadags flóttafólks

Ungliðahreyfing Amnesty International mun halda viðburð næstkomandi mánudag í húsi …
Ungliðahreyfing Amnesty International mun halda viðburð næstkomandi mánudag í húsi Máls og Menningar sem kallast „Story Sharing Café“. Veggspjald eftir Kosmonatka. Ljósmynd/Aðsend

Í tilefni af Alþjóðadegi flóttafólks, sem er á morgun, hvetur Ungliðahreyfing Amnesty International alla sem geta til mæta á viðburð þeirra sem nefnist „Story Sharing Café“ en hann verður haldinn í húsi Máls og menningar á Laugavegi 18.

Viðburðurinn verður frá kl. 19-21 og er aðgangur ókeypis en mælt er með því að mæta snemma til að ná sæti við borðin. Vakin er athygli á því að tónlistarkonan Kusk, sigurvegari Músiktónlistarverðlauna í ár, mun spila tónlist á viðburðinum. Eftir viðburðinn er stemningunni haldið áfram þar sem tónlistarmaðurinn Sibbi mun halda uppi svokölluðu „Sing-Along“. 

Lærum hvað við eigum í raun sameiginlegt

Tilgangur viðburðarins er að gefa öllum tækifæri, óháð þjóðerni og stöðu, til að setjast við borð og deila sögum af eigin lífsreynslu og heyra sögur annarra. 

„Við lærðum þessa aðferð hjá finnsku deild Amnesty International og vorum spennt að kynna hana á Íslandi“ segir Árni Kristjánsson, ungliða- og aðgerðastjóri hjá Íslandsdeildinni, í samtali við mbl.is. 

Amnesty International er með 68 skrifstofur um allan heim og sú íslenska í góðu samstarfi við norrænu deildirnar, en þá sérstaklega ungliðahreyfingin.

„Við erum ansi spennt fyrir þeim viðtökum sem við höfum fengið en sjálfboðaliðar sem hjálpa á viðburðinum eru meðal annars aðilar frá Rauða Krossinum og samtökunum No Borders.“

Mannréttindi eru fyrir okkur öll

Árni segist sjá greinilegan áhuga fyrir viðburðinum innan hópsins sem tengist flóttafólki hér á landi. 

„Þá geta 6-8 einstaklingar, sem mögulega þekkjast ekki innbyrðis, sest við borð hjá umræðustjórnanda og deilt eigin sögum og lífsreynslu. Við borðin eru útprentaðar spurningar sem hver og einn þátttakandi svarar að því marki sem hann kýs. Þetta eru einfaldar og léttar spurningar um hversdagslega atburði sem geta kallað fram skemmtilegar minningar og sögur. Kvöld af þessu tagi hafa yfirleitt myndað sterka tilfinningu fyrir hvað við eigum í raun margt sameiginlegt, þó að uppruni okkar og aðstæður geta verið gjörólíkar.“

Amnesty tekur það fram að stundum er áhersla á það sammannlega besta leiðin til að minna á að mannréttindi eru fyrir okkur öll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert