Tjaldið er skjól til að rækta tengsl

Mongólska hirðingjatjaldið er mikið augnayndi en það þarf góða undirstöðu, …
Mongólska hirðingjatjaldið er mikið augnayndi en það þarf góða undirstöðu, sem nú er safnað fyrir.

Þjóðmenningarbýlið Þetta Gimli er mongólskt hirðingjatjald sem stóð í Árneshreppi á Ströndum í tvö ár og er hugsað sem skjól fyrir það sem þarf skjól í samfélaginu. Skjól til að rækta tengsl, bæði tengsl á milli fólks og tengsl við náttúruna,“ segir Elín Agla Briem, önnur þeirra kvenna sem standa að baki Þessu Gimli, þjóðmenningarbýli sem þær hafa hug á að reisa á höfuðborgarsvæðinu. Þetta Gimli er samstarfsverkefni Elínar sem er heimspekingur og Kristínar Lindu Hjartardóttur geðhjúkrunarfræðings.

„Nauðsynlegt er að hlúa að því sem við sjáum ekki eða erfitt er að festa hendur á, svo sem samheldni, samhljómi og fleira sem er svo gott í lífinu en fellur oft milli skips og bryggju. Okkur Kristínu Lindu finnst að það þurfi að búa til einhvern vettvang sem er sérstaklega hugsaður til að rækta þessi tengsl, og þá erum við að hugsa um að vinna í slíkum hlutum saman frekar en að hver og einn sé einn í sjálfsvinnu. Þetta Gimli er viðbragð hjá okkur við samtímanum þar sem tengslaleysi, einmanaleiki og tilgangsleysi er mjög ríkjandi, og fyrir vikið þráum við oft að eiga samverustund með fólki og hafa sameiginlegt markmið og tilgang.“

Inngangur í töfraheim

Elín Agla segir að ýmsar aðferðir verði viðhafðar í hirðingjatjaldinu til að rækta hvers konar tengsl, t.d. vinnustofur, viðburðir og námskeið, en líka hefðbundnar veislur og annað til að styrkja sambönd og tengsl.

„Þetta Gimli verður líka skjól fyrir hið smáa, hið fagra og hið handgerða. Tjaldið sjálft er einmitt holdgervingur þessara hugmynda, því það er smátt og fagurt og það kveikir á fegurðarskyni og ímyndunarafli hjá fólki sem kemur í það. Ég varð oft vitni að því þegar tjaldið stóð í Árneshreppi að það lifnaði yfir augum fólks sem kom inn í tjaldið, af því að það er svo fallegt. Inngangurinn inn í Þetta Gimli er inngangur í töfraheim,“ segir Elín og bætir við að nú sé tjaldið í geymslu en þær Kristín Linda hafa hug á að reisa það á höfuðborgarsvæðinu.

Elín Agla og Kristín Linda vinna saman að Þessu Gimli.
Elín Agla og Kristín Linda vinna saman að Þessu Gimli.

„Við getum alveg ræktað tengsl við náttúru og hvert annað yfir vetrartímann í höfuðborginni, við þurfum ekki alltaf að fara upp í sveit, þótt hún sé yndisleg. Fyrsta skrefið er að safna fjármunum til að byggja traustan pall, undirstöðu fyrir tjaldið, og við erum einmitt að gera það núna með hópfjármögnun á Karolinafund. Í framhaldi ætlum við að ræða við sveitarfélögin hér og óska eftir stöðuleyfi til að setja tjaldið upp. Framtíðarhugmyndin er að setja hvelfingu yfir tjaldið, eða „geodome“, til að verja það fyrir vetrarveðrum og hafa aðgengi að því allan ársins hring. Þessi tjöld eru hönnuð fyrir hásléttur Mongólíu þar sem veður er mjög þurrt, en ekki fyrir íslenskan vetur. Hvelfingin yfir tjaldinu yrði þá nokkurs konar gróðurhús þar sem hægt verður að hafa útieldhús og setustofu.“

Eins og vöðvar í sálinni

Söfnun á Karolinafund fyrir undirstöðu fyrir tjaldið lýkur að kvöldi 23. júní.

„Okkur vantar sextíu til hundrað stuðningsaðila í viðbót til að ná markmiðinu, en hópfjármögnun virkar þannig að annaðhvort næst allt eða ekkert. Við viljum einmitt að margir komi að undirstöðunni, þannig verður hún í anda þorpsvitundar og þorpsiðkunar. Þorpsvitund, tengsl og samhljómur eru eins og vöðvar í sálinni sem hægt er að þjálfa – þjálfa eins og hópíþrótt – og það er tilgangurinn með starfseminni sem verður í hirðingjatjaldinu. Þar verður menning og matur, notalegheit og samvera, veislur og samtöl. Þeim mun fleiri sem styðja og styrkja þeim mun öflugri verður undirstaðan og þannig styrkari stoð fyrir skjólið.“

Fyrir þá sem vilja taka þátt í að gera Þetta Gimli að veruleika, þá er slóðin á karolinafund.com: Þetta Gimli – þjóðmenningarbýli.

Þau sem leggja til í söfnun undirstöðu fyrir tjaldið fá ýmislegt í staðinn, eftir því hve háa upphæð þau leggja fram, til dæmis boð í saumaklúbb sem haldinn verður í tjaldinu þegar það er risið, veggspjald, þráðalegg, körfu og bursta, boð í vinnustofu um náttúrualtari haldið af Elínu Öglu, eða að bjóða öðrum með sér í hálfan dag til að dvelja í tjaldinu. Einnig heilan dag með veislustjórn eða tjaldið sem sal fyrir veislu, með veislustjórn ef vill.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka