Orkustofnun hefur auglýst í Lögbirtingarblaðinu að borist hafi umsókn frá Landsvirkjun um virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Umsóknin var afhent 8. júní á síðasta ári og því var liðið heilt ár og tveir dagar að auki þegar Orkustofnun gaf út auglýsingu sína 10. júní sl.
Ekki er lengur kveðið á um tímafresti við útgáfu virkjanaleyfa í raforkulögum eða reglugerð. Því gilda almennar reglur stjórnsýsluréttarins um málshraða. Það þýðir að ákvarðanir skulu teknar eins fljótt og unnt er. Ekki eru heldur birtar málsmeðferðarreglur á vef Orkustofnunar.
Afgreiðsla umsókna um virkjanaleyfi tekur nú miklu lengri tíma en var fyrir nokkrum árum, ef skoðuð eru gögn um útgefin leyfi á vef Orkustofnunar. Samkvæmt heimildum blaðsins var áður stuðst við óformlegar málsmeðferðarreglur við veitingu virkjanaleyfa. Í þeim fólst að þegar umsókn barst var gengið strax í að athuga hvort umsókn uppfyllti formskilyrði. Ef formið var ekki í lagi var óskað eftir skýringum eða frekari gögnum og reynt að gera það innan tveggja vikna frá móttöku umsóknar. Þegar formskilyrðum var fullnægt var umsóknin kynnt með auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu, eins og ákvæði raforkulaga kveða á um, og gefinn fjögurra vikna frestur til athugasemda. Ef athugasemdir bárust voru þær kynntar umsækjanda og gefinn kostur á andmælum.
Stefnt var að því að innan tveggja mánaða frá því umsókn barst eða umsækjandi hafði bætt úr ágöllum yrði tekin ákvörðun um hvort veita ætti virkjanaleyfi eða ekki. Niðurstaðan var síðan send umsækjanda, á hvorn veginn sem hún var, og honum veitt tækifæri til andmæla.
Þessi málsmeðferð er grunnurinn að því að það tók ekki langan tíma að afgreiða umsóknir. Eitthvað virðist hafa breyst hjá Orkustofnun. Umsókn Landsvirkjunar um Hvammsvirkjunar er enn í miðju ferli þótt ár séð liðið frá því hún var send inn. Að vísu ber að taka fram að Orkustofnun óskaði í apríl eftir skýrari upplýsingum um einstaka atriði umsóknarinnar. Það hefur því tekið starfsmennina tíu mánuði að lesa ítarlega greinargerð þar sem helstu atriði voru dregin fram og ef til vill að fara í einstök fylgigögn, til að komast að því að eitthvað þurfti að skýra betur út.
Þegar Morgunblaðið spurðist fyrir um málið í febrúar kom fram hjá Orkustofnun að ástæða dráttarins væri umfang umsóknar og annir hjá stofnuninni. Umsókninni fylgdu gögn upp á 1.200 blaðsíður auk korta og teikninga. Landsvirkjun leit á þau sem ítargögn sem viðkomandi starfsmenn gætu opnað ef þeir þyrftu að glöggva sig á einstaka atriðum. Þetta verkefni á sér vissulega langa þróunarsögu og hefur breyst með tímanum, en ætli þessi dráttur sé samt ekki óeðlilegur eða að minnsta kosti óheppilegur?
Greinina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu.