Arnar Þór Stefánsson, formaður skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar, gerir fastlega ráð fyrir að bæjarstjórnin samþykki að banna lausagöngu katta á ákveðnum tíma.
Gangi bannið eftir mun það gilda yfir varptíma fugla eða frá 1. maí til 15. júlí og frá klukkan átta á kvöldin til klukkan átta á morgnana.
Að sögn Arnars barst nefndinni beiðni um að banna lausagöngu katta yfir sumartímann og það sé því ákveðin málamyndunarniðurstaða að miða við varptímann og við kvöld- og næturlag.
Bannið var samþykkt einróma af skipulags- og umhverfisnefnd og verður það borið upp til samþykktar á næsta fundi bæjarstjórnarinnar sem Arnar reiknar með að verði í næstu viku.
Aðspurður segir Arnar að kvartanir hafa borist vegna lausagöngu katta. „Kvartanirnar hafa fyrst og fremst snúið að því að kettir séu að fanga unga og fólki finnst leiðinlegt að horfa upp á þetta,“ segir hann en kettir sveitarfélagsins eru samtals 33.
Þá segist hann ekki hafa orðið var við það að fólk sé óánægt með fyrirhugað bann við lausagöngu. „Ég hef ekki orðið var við þá umræðu, ef hún hefur einvers staðar verið.“
Arnar segir engin viðurlög munu þá verða ef kattaeigendur virði ekki bannið. Allavega ekki til að byrja með. „Við ætlumst til þess að eigendur katta virði þessar samþykktir og svo ef það er ekki gert þá verður að skoða það seinna,“ segir hann.