Ákvörðun sundsambandsins byggð á fávísi

Ólöf Bjarki Antons, varaformaður Trans Ísland.
Ólöf Bjarki Antons, varaformaður Trans Ísland. Ljósmynd/Aðsend

Ólöf Bjarki Antons, varaformaður Trans Íslands, segir ákvörðun Sundsambands Íslands, um að kjósa með tillögu sem kemur í veg fyrir að trans konur geti keppt með öðrum konum í sundi, óupplýsta og ekki í takt við stefnu Íþróttasambands Íslands þegar kemur að málefnum trans fólks.

Hán kveðst sárt yfir því að SSÍ hafi ekki leitað eftir upplýsingum hjá félaginu eða Samtökunum 78 og telur mögulegt að ákvörðunin hafi verið illa upplýst enda sé hún ekki á góðum rökum reist þar sem ekkert bendi til að transkonur séu með meira forskot.

Telur hán breytinguna m.a. vera undir áhrifum af transfóbískri bylgju sem hefur verið að ganga yfir Bandaríkin og Bretland síðustu tvö árin.

Ísland kaus með tillögunni

Alþjóðasundsambandið FINA samþykkti nýlega tillögu um reglugerð sem m.a. bannar trans konum sem hafa gengið í gegnum karlkyns kynþroskaskeið að keppa í kvennaflokki. Af 151 meðlimum sambandsins greiddi 71% atkvæði með reglugerðinni sem telur 34 blaðsíður. Hyggst FINA koma á legg svokölluðum opnum flokki fyrir trans íþróttafólk í greininni. Fréttablaðið greindi frá því að Ísland hafi kosið með tillögunni.

Ólöf Bjarki segir ákvörðunina koma Trans Ísland rosalega á óvart ekki síður vegna atkvæðis Sundsambands Íslands.

„Við höfum verið að vinna með ÍSÍ og þau hafa staðið sig vel þegar kemur að trans fólki og vitundavakningu þar. Þessi ákvörðun hjá Sundsambandinu er ekki í takt við það.“

„Það er ekkert sem segir að þetta þurfi að vera svona af því að það hefur sýnt sig að þegar að trans konur fara á estrógen verður vöðvabyggingin þeirra eins og hjá sís konum. Það er í raun ekkert forskot sem þær eru með fremur en sís sundkonur.“

Þá segir hán erfitt að færa rök fyrir því að skynsamlegt sé að útiloka trans konur vegna beinabyggingar þeirra þar sem margar sís konur eru einnig hávaxnar. „Þau geta þá alveg eins bannað sís konur í sundi sem eru yfir 1,80.“

Transfóbísk bylgja að ganga yfir

Ólöf Bjarki segir ákvörðunina vera í takt við þá transfóbísku bylgju sem er að ganga yfir Bandaríkin og Bretland en hún hefur verið að færa sig víðar um Evrópu.

Bylgjan beinist sérstaklega gegn trans konum og felst hún m.a. í reglugerðum sem takmarka rétt þeirra innan íþróttaheimsins. Þá hafa ákveðin félagshreyfingar einnig verið að beita sér fyrir því að takmarka aðgengi trans kvenna að kvennarýmum.

Spurt hvort hán telji ákvörðun SSÍ hafa byggt á fordómum, segir hán líklegra að um fávísi sé að ræða.

„Þau fá upplýsingar – ekki frá endilega trans fólki heldur fólki sem að er ekki nógu upplýst og er með ákveðnar skoðanir. Ég held að þau hafi verið að hlusta á rangt fólk. Ég vona að þetta sé ekki transfóbía frá þeim og ég held að þau hafi verið að gera það sem þau halda að sé rétt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert