Björn hafði betur í máli gegn ráðherra

Birni var sagt upp sem upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar í janúar 2021.
Birni var sagt upp sem upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar í janúar 2021. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Björn Þorláksson, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar (UST), hafði betur í máli sem hann höfðaði gegn ráðherra vegna ákvörðunar Sigrúnar Ágústsdóttur, forstjóra UST, um að segja Birni upp starfi í janúar 2021, samfara niðurlagningu starfs hans. 

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur var sú að forstjóri UST hefði með ákvörðun sinni um að leggja niður starf upplýsingafulltrúa brotið gegn rétti Björns með saknæmum og ólögmætum hætti og bakað honum bótaskyldu. Íslenska ríkinu er því gert að greiða Birni rúmar 6,7 milljónir króna auk 2,5 milljónir króna í málskostnað. 

Gekkst undir hæfnismat

Björn varð fyrir slysi tveimur árum eftir að hann var ráðinn upplýsingafulltrúi UST og átti í framhaldi af því við talsverða vanheilsu að stríða fyrri hluta árs 2020, að því er segir í dóminum. 

Þann 19. nóvember 2020, eftir að Björn hóf störf að nýju eftir veikindaleyfi, var hann kallaður fyrirvaralaust á fund forstjóra og mannauðsstjóra UST þar sem honum var tilkynnt í bréfi um verulegar breytingar á verkefnaskipulagi og áherslum tengdum starfi hans. 

Ný starfslýsing fylgdi með bréfinu og var Birni boðið að taka þátt í hæfnismati út frá breyttum hæfniskröfum, annars yrði honum sagt upp starfi. Björn samþykkti að taka þátt og undirgekkst hæfnismat í lok nóvember. Forstjóri UST bauð Birni starfslokasamning þann 7. desember, sem hann hafnaði. 

Þann 15. janúar 2021 barst Birni bréf þar sem tilkynnt var að leggja ætti starf hans sem upplýsingafulltrúa niður 1. febrúar og þar með myndi vinnuskylda hans falla niður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka