Undanþáguheimild í hjúskaparlögum sem heimilaði að einstaklingur yngri en 18 ára megi gifta sig með sérstöku leyfi frá frá dómsmálaráðuneytinu hefur nú verið afnumin með ný samþykktu frumvarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Hefur ráðuneytið því ekki lengur lagaheimild til að veita börnum leyfi til að ganga í hjúskap.
Á vef Stjórnarráðsins segir að markmiðið með þessari breytingu sé að samræma hjúskaparlögin með alþjóðlegum tilmælum og viðhorfum varðandi lágmarksaldur til að ganga í hjúskap.
Ýmsar breytingar voru gerðar á hjúskaparlögunum eins og varðandi lögsögu í hjónaskilnaðarmálum, auk breytinga sem snúa að því að færa tiltekin verkefni frá dómsmálaráðuneytinu til sýslumanna.
Þá var lögfest sú grunnregla að hjúskapur sem er stofnaður til erlendis verður að uppfylla þau skilyrði sem eru lögfest í vígslulandinu til að vera viðurkenndur sem hjúskapur. Hjúskapur sem stofnað er til erlendis verður þó ekki viðurkenndur hér á landi ef annað hjóna eða bæði voru yngri en 18 ára þegar vígslan fór fram.
Þegar sérstaklega stendur á og ótvíræðir hagsmunir þess sem var yngri en 18 ára krefjast þess verður þó heimilt að viðurkenna hjúskap hér á landi ef viðkomandi hafði náð 16 ára aldri þegar hjónavígsla fór fram og hjúskapurinn er viðurkenndur í því landi þar sem hjónavígslan fór fram.
Þó nokkrar breytingar voru gerðar á ákvæðum hjúskaparlaga varðandi lögsögu íslenskra stjórnvalda varðandi hjúskap. Til dæmis varðandi lögsögu dómstóla til þess að veita lögskilnað hér á landi í tilteknum tilvikum ef hvorugur aðili býr hér á landi og viðkomandi eru ekki íslenskir ríkisborgara.
Mál til hjónaskilnaðar má nú höfða hér á landi ef hjónavígslan hefur farið fram hér og leitt er í ljós að stefnandi geti ekki höfðað mál í landinu þar sem hann hefur ríkisfang eða er búsettur.
Þá geta stjórnvöld nú leyst úr hjónaskilnaðarmálum er tengjast öðrum ríkjum ef hjónavígsla hefur farið fram hér á landi og leitt er í ljós að sá sem óskar hjónaskilnaðar getur ekki óskað eftir hjónaskilnaði í landinu þar sem hann á ríkisfang eða er búsettur.