Icelandair þurfti að aflýsa flugi sínu til Brussel í Belgíu í dag en að sögn Guðna Sigurðssonar, samskiptafulltrúa Icelandair, gekk tilkynning til viðskiptavina um aflýsingu flugsins mjög vel. Var því enginn viðskiptavinur sem mætti í dag til að fara í aflýst flugið og var þeim boðið að fljúga til Brussel í gær eða á morgun í staðinn.
Að sögn Guðna vissu þeir hjá Icelandair af verkfallinu í Belgíu sem öryggisstarfsfólk á flugvellinum í Brussel tók þátt í með nokkra daga fyrirvara. Verkfallið hafði þær afleiðingar að aflýsa þurfti öllum flugferðum til og frá flugvellinum.
Því hafði Icelandair nægan tíma til að láta viðskiptavini vita með góðum fyrirvara. Var viðskiptavinum þá boðið að færa flugferðina um einn dag og fljúga annað hvort í gær eða á morgun. Þá var viðskiptavinum einnig boðið að fljúga í dag til Parísar eða Amsterdam.
Segir Guðni að það hafi gengið mjög vel að tilkynna breytinguna og aðstoða fólk að velja annað flug. Því mætti enginn á Flugstöð Leifs Eiríkssonar í morgun í þeim tilgangi að fljúga til Brussel.
Aðspurður segir Guðni að Icelandair búist ekki við að þurfa að grípa til svona aðgerða aftur fyrir flug til Brussel á næstunni og að flogið verði eftir áætlun þangað til annað kemur í ljós.