Landssamtökin Geðhjálp og Þroskahjálp fagna því að fyrsta skrefið hafi verið stigið í að rannsaka aðbúnað og meðferð fatlaðs fólks með þroskahömlun og fólks með geðræna vanda. Í ályktun er tekið undir tillögu nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra um að rannsókn fari fram á vegum rannsóknarnefndar og ítrekað að vandað verði til verka í framhaldinu.
Samtökin telja mikilvægt að í nefndinni verði fulltrúar þjónustunotenda og að Þroskahjálp og Geðhjálp hafi aðkomu að skipan hennar og vinnu frá upphafi. „Ekkert um okkur án okkar,” segir í ályktuninni.
Samtökin taka undir það að rannsóknartímabilin verði tvö, frá 1970 til 2011 og frá 2011 fram til dagsins í dag en benda á að ekki megi loka fyrir eldri mál. „Það er ekki ólíklegt að fólk sé á lífi sem var á stofnunum fyrir 1970 og einnig aðstandendur sem kunna að upplifa sorg og eftirsjá vegna framkomu gagnvart ættingjum sínum. Þetta fólk á rétt á viðurkenningu og uppgjöri.”
Þá segir í ályktuninni að þær upplýsingar sem fram koma í skýrslu nefndarinnar um eftirlitsaðila, skyldur þeirra og framkvæmd eftirlits kalli á tafarlausa úttekt á starfsemi þessara aðila.
„Það að Landlæknisembættið hafi ekki svarað nefndinni er ekki til þess fallið að auka traust almennings á stofnunum og stöðum sem vista fatlað fólk með þroskahömlun eða fullorðna með geðrænan vanda. Smæð sveitarfélaga og geta þeirra til þess að sinna lögbundnum skyldum sínum er áhyggjuefni.”