Funda með Sæferðum vegna Baldurs

Ferjan Baldur er skammt fyrir utan Stykkishólm á laugardaginn.
Ferjan Baldur er skammt fyrir utan Stykkishólm á laugardaginn. mbl.is/Einar Falur

Vegagerðin fundar með Sæferðum í fyrramálið vegna Breiðafjarðarferjunnar Baldurs.

Að sögn Bergþóru Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra þjónustusviðs Vegagerðarinnar, hefur stofnunin verið í samtölum við Sæferðir síðan á laugardaginn eftir að Baldur var á reki um 300 metra frá landi í rúmar fimm klukkustundir, en ferjan hefur ítrekað bilað á síðustu árum.

Á fundinum í fyrramálið verður meðal annars farið yfir ástandið á ferjunni.

Spurð hvort málið sé ekki alvarlegt segir Bergþóra að hættulegar aðstæður geti komið upp þegar skipið stoppi úti á rúmsjó. „En skipið hefur verið í úttektum hjá Samgöngustofu og því er fylgt eftir að skipið sé í lagi og í standi,“ segir hún, en Samgöngustofa ber ábyrgð á því að gefa út haffærisskírteini fyrir skipið.

Bergþóra nefnir að siglingar Baldurs hafi gengið vel bæði í gær og í dag.

Í skoðun í eitt og hálft ár

Stefnt er að því að Herjólfur III muni taka við siglingum á Breiðafirði haustið 2023 nema annað hentugra skip finnist í stað Baldurs. Sig­urður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagðist í gær hafa fulla trú á því að Herjólf­ur III dugi þar til að nýtt skip verði smíðað.

„Þetta er búið að vera í skoðun í eitt og hálft ár,“ segir Bergþóra, spurð hvort eitthvað annað skip en Herjólfur III sé inni í myndinni. „Það [Herjólfur III] er eina skipið sem við eigum og er í hendi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka