39 ný endurhæfingarrými fyrir aldraða verða opnuð fyrsta september á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði. Þetta staðfestir Ingibjörg Eyþórsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Sólvangi, í samtali við mbl.is í dag.
Skrifað var undir samning um starfsemina á milli Sjúkratrygginga Íslands og Sóltúns öldrunarþjónustu í dag þar sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, mættu til að vera viðstödd undirritun.
Að sögn Ingibjargar er þetta ný starfsemi sem mun opna á Íslandi í fyrsta skipti þar sem eldri en 67 ára mun gefast færi á að sækja endurhæfingu á Sólvangi þar sem þeim verður veitt einstaklingsmiðuð, heildræn og þverfagleg endurhæfing í stað þess að vera á Landspítalanum. Reiknað er með að hægt verði að veita að minnsta kosti 400 einstaklingum þjónustu á ári.
„Fólk kemur til okkar að jafnaði í fjórar vikur og þetta er ekki eins og þessar dæmigerðu hvíldarinnlagnir sem eru hér á landi heldur er þetta endurhæfing og þetta mun vonandi gera það að verkum að fólk geti búið lengur í sjálfstæðri búsetu,“ segir Ingibjörg.
Að mati Ingibjargar mun þetta koma til með að létta á starfsemi Landspítalans. Segir hún að fólk muni þá koma af Landspítalanum sem er orðið of hresst til að vera þar en ekki alveg tilbúið til að fara strax heim.
Mun að auki Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og heimahjúkrun ávísa fólki á endurhæfingarrýmin. Er það talið líklegt til að draga úr þörfum fyrir heimsóknir á bráðamóttöku. Fær fólk við innkomu einstaklingsmiðaða meðferðardagskrá og mun þjónustan vera að kostnaðarlausu fyrir sjúkratryggða íslenska ríkisborgara.
Þá segir Ingibjörg að þetta sé búið að vera í vinnslu í ár og að nú sé næstum búið að gera upp eldra húsnæði Sólvangs til notkunar undir endurhæfingarrýmin. Er því aðeins eftir að leggja loka hönd á allt saman áður en að starfsemin getur hafist.
Segir Ingibjörg að um hálfgerða tilraunastarfsemi sé að ræða. „Við erum öll mjög spennt að sjá hvernig þetta mun takast því að ef þetta tekst vel þá gæti þetta orðið fyrirmynd að sambærilegri þjónustu víðar.“
Heilbrigðisráðherra segist hæstánægður með þessa nýju starfsemi. „Það er mér mikil ánægja að staðfesta samninginn um þessa þjónustu sem ég tel að marki tímamót. Við eigum að leggja miklu meiri áherslu á virkar forvarnir og endurhæfingu eins og hér verður gert og ég sé fyrir mér að þetta geti orðið fyrirmynd að sambærilegri þjónustu miklu víðar og um allt land“ segir Willum í tilkynningu.