Íslenska lyfjaþróunarfyrirtækið 3Z hefur lokið 265 milljón króna hlutafjáraukningu. Fjármagnið verður nýtt til að ljúka forklínískum rannsóknum á tilraunarlyfjum fyrirtækisins við ADHD og svefnleysi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu í dag.
Fyrirtækið, sem sprettur úr grunnrannsóknum við Háskólann í Reykjavík, hefur á síðustu árum þróað tækni og getu til þess að búa til líkön af miðtaugakerfissjúkdómum í sebrafiskum. Þar að auki hefur það þróað tækni til að greina og flokka áhrif lyfja í umfangsmiklum mælingum.
Tæknin gerir kleift að skima á stuttum tíma stór lyfjasöfn fyrir miðtaugakerfisáhrifum. Fyrstu lyfin sem 3Z fær einkaleyfi fyrir eru við ADHD og svefnleysi. Nýju ADHD lyfjaefni 3Z eru ekki örvandi lyf eins og flest lyf sem gefin eru í meðferð við ADHD.
Samkvæmt tilkynningu fyrirtækisins eru vísbendingar um að lyfin hafi vægari aukaverkanir en núverandi lyf á markaði og geti nýst stórum hópi sjúklinga sem svara ekki lyfjameðferð.
„Háskólinn í Reykjavík, Tækniþróunarsjóður og ekki síst endurgreiðsla ríkisins á rannsóknar- og þróunarkostnaði hafa reynst fyrirtækinu öflugur stuðningur til þess að komast á þann stað þar sem eðlilegt er að fjárfestar taki við. Þessari fjárfestingu fylgir ekki bara nauðsynlegt fjármagn, heldur mikil reynsla í að takast á við þær spennandi áskoranir sem fram undan eru. Fyrirtækið er í kjörstöðu til þess að hagnýta þær upplýsingar sem nú liggja fyrir,“ er haft eftir Karli Ægi Karlssyni framkvæmdastjóra fyrirtækisins og prófessors við Háskólann í Reykjavík í fréttatilkynningu.