Hið ómögulega reyndist mögulegt

Margir hafa lýst óánægju sinni með að fossinn Dynkur í …
Margir hafa lýst óánægju sinni með að fossinn Dynkur í Þjórsá var færður úr verndarflokki yfir í biðflokk með nýrri rammaáætlun. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það kæmi mér á óvart ef einhver segði að þetta væri nákvæmlega eins og hann vildi hafa það en aðalatriðið er að þarna var margt fólk sem lagði mikið á sig til að sjá til þess að þetta verk yrði klárað.“ Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um rammaáætlun 3 sem var samþykkt á þriðjudaginn en harmar að hafa ekki getað verið viðstaddur þegar kosið var um málið á þinginu.

Ástæða fjarveru ráðherrans var að hann var að júbílera með Menntaskólanum á Akureyri. Bendir hann á að atkvæðagreiðslan hafi upprunalega átt að vera á fimmtudeginum en ekki miðvikudegi og sér hafi ekki borist upplýsingar um breytingarnar með nægum fyrirvara. Tekur hann þó fram að þessi mistök séu engum að kenna og sér þyki þetta verulega leiðinlegt. Aðspurður segist hann ekki hafa fengið neina gagnrýni vegna þessa óheppilega atviks – mestu gagnrýnina hafi hann fengið frá sjálfum sér.

Sýni styrk ríkisstjórnarinnar

Að mati Guðlaugs er mikilvægast af öllu að rammaáætlunin sé tilbúin og náðst hafi sátt í þessu erfiða og tímabæra verkefni. Segist Guðlaugur þá vera gífurlega ánægður með útkomuna og að búið sé að klára þennan áfanga. Bendir hann á að níu ár eru frá því að síðasta rammaáætlun var samþykkt og fjórir ráðherrar hafi komið á undan sér án þess að sátt hafi náðst um rammaáætlun 3 en lögum samkvæmt eigi að samþykkja nýja rammaáætlun á fjögurra ára fresti. „Ég man ekki hversu oft ég heyrði þegar ég fór í þetta verkefni að þetta væri ekki hægt,“ segir Guðlaugur hæstánægður með lokið verk.

Segir hann styrk ríkisstjórnarinnar og þrautseigju hafa gert gæfumuninn í þessari vinnu. „Þetta gerðist ekki af sjálfu sér, á bak við þetta er gífurlega mikil vinna og þá sérstaklega hjá umhverfis- og samgöngunefnd. Þetta sýnir að ef fólk vill ná niðurstöðu þá eru málamiðlanir mikilvægar til að komast að sátt og klára svona verkefni.“

Hrósar hann í hástert starfi nefndarformanns, meirihluta nefndarinnar, stjórnarflokkanna og formanna meirihlutans. Ítrekar Guðlaugur að eftir þetta samþykki á rammaáætlun 3 sé mun líklegra að Ísland nái að standa við loftslagsmarkmið sín, sem að sínu mati séu mjög metnaðarfull. „Verkefni okkar er að sjá til þess að komandi kynslóðir fái að njóta endurnýjanlegu raforkunnar enn frekar en við höfum gert og við ætlum að gera þetta með þeim hætti að við vöndum okkur mjög.“

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, mánudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka