Kamilla og Marco Reykvíkingar ársins

Kamila Walijewska og Marco Pizzolato.
Kamila Walijewska og Marco Pizzolato. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Kamila Walijewska og Marco Pizzolato eru Reykvíkingar ársins. Tilkynnt var um þetta við opnun Elliðaánna í morgun. 

Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, tilkynnti um valið við veiðihús Stangaveiðifélags Reykjavíkur skömmu eftir klukkan sjö í morgun og síðan var haldið til veiða í ánum. 

Kamilla og Marco komu upp svokölluðum frísskáp við Bergþórugötu 20 síðasta sumar en viðtökurnar voru framar vonum. 

Markmiðið með frísskápum er að draga úr matarsóun og byggja upp samfélag í kringum það að deila umframmat.

„Okkur finnst frábært að sjá verkefnið öðlast eigið líf. Fólk lætur orðið berast, kemur færandi hendi með mat og stundum heyrum við af fólki sem hittist við kælinn og kynnist þannig. Við sjáum mikla möguleika á að tengja fólk saman og efla um leið meðvitund um matarsóun og þar með um jörðina okkar,“ er haft eftir Kamillu í viðtali sem tekið var við þau Marco fyrir vef Reykjavíkurborgar í fyrra.

Um 5.000 manns eru í Facebook-hópi frísskápsins sem stofnaður var síðasta sumar. Þar auglýsir fólk reglulega ef það hefur komið einhverju góðgæti fyrir í þeim þremur skápum sem nú hafa náð fótfestu. Þeir eru staðsettir við Bergþórugötu 20, Völvufell í Breiðholti og hjá Hjálpræðishernum við Suðurlandsbraut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka