Kórónuveiran síður en svo uppiskroppa með fóður

Innlögnum vegna Covid-19 hefur fjölgað að undanförnu en einnig hefur …
Innlögnum vegna Covid-19 hefur fjölgað að undanförnu en einnig hefur fólk sem þegar lá á spítala smitast. Er fólk inniliggjandi vegna og/eða með Covid-19 á heilbrigðisstofnunum víða um land. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Enn er fóður fyrir kórónuveiruna í íslensku samfélagi og er greinilega til staðar hópur af eldra fólki sem getur smitast og jafnvel veikst alvarlega, að sögn sóttvarnalæknis. Undirafbrigði Ómíkron, sem hefur verið áberandi í smitum hér innanlands undanfarið, virðist vera meira smitandi en fyrri afbrigði. Þó er ekki útlit fyrir að það valdi fleiri endursmitum.

„Þetta er ekki ný bylgja heldur aukin útbreiðsla,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

Eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið hefur útbreiðsla veirunnar aukist á síðustu dögum. Þá fór innlögnum vegna Covid-19 og smitum innan Landspítala að fjölga í síðustu viku.

„Fólk sem liggur inni [á spítala] er mikið til eldra fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem þolir þessa sýkingu illa,“ segir Þórólfur. Hann bætir því við að upp á síðkastið hafi líka yngra fólk sem er óbólusett veikst mikið.

Gæti verið erfitt að grípa til takmarkana

Þórólfur sér ekki fram á að mæla með því við heilbrigðisráðherra að gripið verði til takmarkana í samfélaginu.

„Ég held að það gæti verið erfitt,“ segir Þórólfur og bendir á að fyrrnefnt undirafbrigði sé meira smitandi en þau afbrigði sem komu á undan. Reynslan af takmörkunum í janúar og febrúar hafi verið þannig að þrátt fyrir takmarkanir hafi útbreiðsla veirunnar verið mikil.

„Ég veit ekki hverju slíkar takmarkanir myndu skila nema þá mjög strangar takmarkanir sem ég held að myndu ekki ganga,“ segir Þórólfur sem vill heldur beita öðrum ráðum.

„Við þurfum að beita þessum sóttvarnaráðstöfunum,“ segir Þórólfur. „Við hvetjum sérstaklega þá sem eru viðkvæmir til þess að forðast fjölmenna staði, nota grímu meira í rýmum þar sem margt fólk er og loftræsting léleg.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hvetur einstaklinga til að taka málin í …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hvetur einstaklinga til að taka málin í sínar eigin hendur og viðhafa sóttvarnir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sú fjórða kemur klárlega í veg fyrir alvarleg veikindi

Að auki segir hann mikilvægt að fólk sem hafi fengið tilmæli um að fara í fjórðu bólusetninguna, t.a.m. fólk sem hefur náð 80 ára aldri og fólk í viðkvæmum hópum, fari í hana.

„Það er klárt að hún kemur í veg fyrir alvarleg veikindi, þó hún komi kannski ekki alveg eins vel í veg fyrir smit,“ segir Þórólfur.

Hann bendir á að eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma fari almennt verst út úr smiti og að stór hluti þess fólks hafi enn ekki smitast af kórónuveirunni.

„Við sáum það í rannsókn sem við gerðum með Íslenskri erfðagreiningu á mótefnastöðinni í byrjun apríl að það voru um 50 til 60% af eldra fólki sem höfðu ekki smitast,“ segir Þórólfur og bætir við: „Það er greinilega hópur af eldra fólki þarna úti sem getur smitast.“

„Við vitum að smitin eru fleiri“

Þó opinberar tölur sýni að um 200 manns greinist nú smitaðir af kórónuveirunni daglega, þá gæti veruleikinn verið annar.

„Við vitum að smitin eru fleiri. Það eru ekki allir sem fara í opinbert próf, það eru einhverjir sem greinast bara á heimaprófi. Það er greinilega ennþá fóður fyrir veiruna úti í samfélaginu,“ segir Þórólfur. Ekki hefur verið mikið um endursmit.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka